Reykskynjarar hafa reynst mörgum einstaklingum lífgjöf. Þrátt fyrir það eru rúmlega 4% heimila sem hafa ekki reykskynjara. Kostnaður við slíkan öryggisbúnað ætti ekki að stoppa neinn en ódýrustu skynjararnir eru í kringum þúsund krónur. Núna í upphafi aðventunnar, þegar brunar á heimilum eru flestir, er full ástæða til að vera viss um að skynjarar heimilisins séu í lagi.

  • Ef skynjarar eru með 9 vatta rafhlöðu þarf að skipta um þær einu sinni á ári. Gott er að miða það við upphaf aðventu og prófa síðan virkni  skynjara eftir að búið er að skipta.
  • Líftími skynjarans sjálfs eru 10 ár. Framleiðsludag má sjá á bakhlið. Ef svo er ekki þá, eru ágætis líkur á að skynjarinn sé orðinn ansi gamall.
  • Ef skynjari er með 10 ára rafhlöðu, þarf að prófa virkni hans árlega með því að ýta á þar til gerðan hnapp.
  • Skynjari á að vera í öllum herbergjum og rýmum þar sem rafmagnstæki eru.

Enginn vill kljást við bruna eða afleiðingar hans. Því hvetjum við alla til að hafa öryggi að leiðarljósi núna á aðventunni og yfir hátíðarnar sem endranær. Frekari upplýsingar um eldvarnir heimilisins eru á vis.is og ef vantar rafhlöður í reykskynjara má nálgast þær á skrifstofum okkar.