Fyrir Verslunarmannahelgi er full ástæða til að minna ökumenn á mikilvægi þess að setjast aldrei undir stýri ef áfengi eða önnur vímuefni hafa verið höfð um hönd. Samkvæmt slysatölfræði Samgöngustofu slösuðust 149 einstaklingar á síðasta ári vegna slíks aksturs, þar af 24 alvarlega og einn lést.

Á síðasta ári voru yfir helmingur mála sem VÍS sendi endurkröfunefnd bifreiðatrygginga vegna ölvunar- og/eða fíkniefnaaksturs. Þar eru tjónvaldar krafðir um kostnað þess umferðarslyss sem þeir ollu. Við þann kostnað bætist svo sekt lögreglu og ökuleyfissvipting. Allur þessi kostnaður getur reynst léttvægur samanborið við missi heilsu sem ósjaldan verður í þessum slysum og þá ekki eingöngu hjá tjónvaldi heldur öðrum sem viðkomandi slasaði.

Mikilvægt er að hver og einn taki afstöðu um að aka aldrei eftir neyslu og þá líka að fara ekki of fljótt af stað daginn eftir. Það getur t.a.m. tekið líkama 70 kg einstaklings allt að 3,5 klukkustundir að brenna alkóhólmagni hálfs lítra bjórs.

VÍS óskar öllum góðrar og öruggrar ferðar um helgina og hvetur ökumenn til að gæta að hraða, hafa alla athygli við aksturinn, vera með beltið spennt og allsgáðir og úthvíldir.