Í síðustu viku lentu 10 ára strákur á hjóli og bíll sem var á leiðinni frá Miklubraut norður Löngumýri í Reykjavík saman. Betur fór en á horfðist. Stuðara, ljós, hjálm og hjól þarf að endurnýja en það sem mestu skiptir er að drengurinn slapp nokkuð vel. Mar, skrámur og tognun er það sem sat eftir en sjokkið eflaust erfiðast bæði fyrir strákinn og bílstjórann en Stöð 2 fjallaði um óhappið í fréttum hjá sér. 

Hjólreiðafólki fer fjölgandi sem er vel en því miður eru slysin líka á sömu leið sem er þróun sem við viljum vera án. Að meðaltali koma tæplega 600 einstaklingar á Landspítalann árlega vegna hjólreiðaslysa og var lögreglan kölluð til í 142 tilfellum í fyrra þar sem hjólreiðamaður hafði slasast. Á þessum tíma er mjög mikilvægt að hjólreiðafólk hugi sérstaklega að sýnileika sínum, negldum dekkjum og góðum hjálmi.

Mikilvægt er að allir, sama hvaða ferðamáta þeir nota, séu alltaf með athyglina við umferðina, horfi í kringum sig og búist við að aðrir í kring geri eitthvað óvænt. Treysti þannig öðrum ekki í blindni, ekki einu sinni græna ljósinu en kannanir okkar sýna t.a.m. að bíll fer yfir á rauðu á öðru hvoru ljósi.

    

Bíllinn eftir slysið                                                       Hjálmurinn eftir slysið

    

Sæti og gjarðir vel skakkt eftir slysið        Slysstaður