Á vorin bætast allt að 13.000 ökutæki við umferðina þegar bifhjólin eru tekin fram eftir dvala yfir veturinn. Skemmtilegt sport en því miður ekki slysalaust og það sem verra er, er að mörg slysin eru mjög alvarleg. Þar er útafakstur algengastur ásamt slysum á gatnamótum. Eins sýnir tölfræðin að hraði er gríðarlega stór þáttur slysanna og að varhugavert sé að lána hjólið sitt. 

Til að koma í veg fyrir slysin er mikilvægt að hafa eftirfarandi þætti í huga:

 • Ef þú hefur ekki ekið mótorhjólinu lengi, byrjaðu þá á að æfa þig á plani eða taka tíma hjá ökukennara
 • Ekki lána hjólið, slysin sýna að þeir sem eru á lánshjólum eru mun líklegri til að lenda í slysi
 • Nota alltaf viðurkenndan öryggisbúnað eins og hlífðarfatnað, hlífar, hjálm, skó og brynju
 • Tryggja sýnileika sinn
 • Sýna öðrum tillitsemi
 • Fara eftir umferðarlögum í öllu
 • Muna að víða er ástand vega með þeim hætti að þeir eru varasamir bifhjólafólki
 • Vera viss um að aðrir ökumenn viti af bifhjólinu
 • Líta ávallt tvisvar þegar farið er t.d. um gatnamót
 • Virða hvar má aka
 • Fara ávallt með gát til að hjólatúrinn endi heima en ekki á ,,slysó“