Þessa vikuna fer WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin af stað. Hjólaðir verða 1.358 km hringinn í kringum landið, mest megnis á þjóðvegi 1. Fyrstu keppendur fara út í dag, þriðjudag, en flestir verða á ferðinni miðvikudag til föstudags. Búast má við yfir 1.000 þátttakendum á stöðum þar sem aðstæður eru ekki alltaf eins og best verður á kosið fyrir hjólreiðamenn. Mikilvægt er að þeir séu meðvitaðir um eigið öryggi. Tryggi sýnileika sinn og leitist við að hjóla í einfaldri röð þegar þess er kostur. Haldi sig hægra megin á veginum og hugi að öruggum skiptingum og séu með vel vakandi bílstjóra í bílunum sem fylgja liðinu.

Bílstjórar og hjólreiðamenn verða líka að sýna hver öðrum tillitsemi. Sérstaklega er mikilvægt að bílstjórar gefi hjólreiðafólki nægt rými á veginum og þeir sem eru á stórum ökutækjum þurfa að vera meðvitaðir um hættuna sem sviptivindar geta valdið hjólreiðafólki er þeir aka framhjá.