Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 23.11.2018

Fleiri ljóslausir en áður

Um fimmtungur allra ökutækja voru ekki með afturljós í lagi í könnun sem VÍS gerði um daginn á ljósabúnaði bíla. Könnunin sýndi svo ekki verður um villst að ökumenn verða að huga betur að því hvernig

Um fimmtungur allra ökutækja voru ekki með afturljós í lagi í könnun sem VÍS gerði um daginn á ljósabúnaði bíla. Könnunin sýndi svo ekki verður um villst að ökumenn verða að huga betur að því hvernig ljósabúnaði ökutækis þeirra er háttað.

Á dögunum gerði VÍS könnun á ljósanotkun bíla í Ártúnsbrekkunni í Reykjavík. Tæplega 11.000 bílar voru taldir og fylgst var með fram- og afturljósum. Skoðaður var munur á ljósanotkuninni í birtu og myrkri og var mikill munur þar á. Í myrkri voru 96% ökutækja með framljósin í lagi en 4% voru eineygð. Afturljós voru í lagi hjá 97% ökutækja í myrkri en 2% voru eineygð og 1% alveg ljóslaus.

Hlutfallið var síðan allt annað þegar ljósanotkun var skoðuð í dagsbirtu. Þá var 94% ökutækja með framljósin í lagi, 4% eineygð og 2% alveg ljóslaus. Afturljós voru aftur á móti eingöngu í lagi hjá 82% ökutækja. 16% ökutækja voru alveg ljóslaus og 2% eineygð.

Kannanir á ljósanotkun hafa verið gerðar reglulega hjá VÍS frá 2013. Miklar breytingar hafa orðið á ljósanotkun frá fyrstu könnun. Þá voru 3% ökutækja eineygð annað hvort að framan eða aftan og eingöngu 1% alveg ljóslaus. Frá þessum tíma hafa lög um ljósabúnað ökutækja ekki breyst hér á landi, enn gildir að við akstur vélknúins ökutækis er skylt að nota lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ljós bæði að framan og aftan allan sólarhringinn. Það sem hefur breyst er að dagljósabúnaður nýrri bíla er orkusparandi samkvæmt Evróputilskipun frá 2011 sem þýðir að afturljós margra bíla kvikna ekki fyrr en að dagsbirta er komin niður fyrir ákveðin mörk og þá um leið og aðalljós kvikna.

Því er mikilvægt að hafa í huga að ef dagljósabúnaður kveikir ekki á afturljósum þá dugar ekki að nota hann, heldur verður að hafa aðalljósin kveikt.