Ársfundur Eldvarnabandalagsins var haldinn í húsakynnum VÍS þann 16. mars. Ársfundurinn var sá áttundi í röðinni og var hann vel sóttur.

Á fundinum kom fram að tólf sveitarfélög hafa nú þegar gert samninga við Eldvarnabandalagið um innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits á undanförnum misserum og er ljóst að þeim mun fjölga á næstunni. Áætlað er að nær fimm þúsund starfsmenn sveitarfélaga hafi fengið fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima í tengslum við verkefnið. Þetta kom m.a. fram í máli Garðars H. Guðjónssonar verkefnastjóra á fundinum.

Á árinu mun Eldvarnabandalagið einnig leggja áherslu á eldvarnir í landbúnaði og sjávarútvegi. Vegna þess hélt Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austurlands, erindi um eldvarnir í landbúnaði og Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, erindi um eldvarnir í sjávarútvegi.

Þá ræddi Elfa S. Leifsdóttir, sálfræðingur hjá Rauða krossinum, um sálræn eftirköst eldsvoða á heimilum og Kristján Rúrik Vilhelmsson, starfsmaður Mannvirkjastofnunar, fór yfir brunatjón síðasta árs.