Hoppa yfir valmynd

Notkunarskilmálar Ökuvísis

Ökuvísir er tryggingaleið í ökutækjatryggingum þar sem vátryggingatakar hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, 108 Reykjavík, sími 560 5000 (hér eftir „VÍS“) fá aðgang að sérsniðnu smáforriti (hér eftir „smáforritið“) og mælitæki (hér eftir „mælitækið“), fá hvatningu til að keyra vel, sem veitir vátryggingataka tækifæri til að hafa með því áhrif á þau iðgjöld sem greidd eru fyrir lögboðna ökutækjatryggingu og kaskó ökutækjatryggingu (hér eftir „tryggingin“ en tryggingaleiðin er hér eftir nefnd „Ökuvísir“). Markmiðið með Ökuvísi er að auka umferðaröryggi og fækka umferðaróhöppum.

Í gegnum smáforritið og mælitækið mun VÍS safna margskonar upplýsingum um aksturslag vátryggingataka og annarra notenda hins vátryggða ökutækis (hér eftir „ökutækið“) og reikna út aksturseinkunn eftir því hversu öruggur aksturinn er. Aksturseinkunn ökutækisins mun hafa áhrif á það verð sem greitt er fyrir ökutækjatryggingar. Vátryggingataki og/eða aðrir notendur ökutækisins hafa því áhrif á hversu mikið vátryggingataki greiðir  fyrir trygginguna eftir því hversu öruggur akstur ökutækisins er og eftir eknum kílómetrum. Vátryggingataki og/eða aðrir notendur hafa m.a. aðgang í smáforritinu að upplýsingum um aksturshegðun, ferðir sínar á korti, ábendingum um hvernig viðkomandi getur bætt sig sem ökumaður og hvatningu til að keyra vel. Þá geta vátryggingataki og/eða aðrir notendur komið á framfæri athugasemdum og andmælum við mat á akstri hans sem VÍS mun vinna úr og bregðast við. 

 

  1. Efni skilmála og skilyrði

    1.1 - Ökuvísir samanstendur af smáforriti sem vátryggingataki skal setja upp í snjalltæki sínu, mælitæki sem hann skal koma fyrir í hinni vátryggðu bifreið og ökutækjatryggingum hinnar vátryggðu bifreiðar. Um smáforritið og mælitækið gilda notkunarskilmálar þessir, sem vátryggingataki og/eða aðrir notendur samþykkja við innskráningu og notkun á smáforritinu. 

    1.2 - Hægt er að  prófa Ökuvísis smáforritið í 14 daga notendum að kostnaðarlausu áður en ákvörðun er tekin um að kaupa ökutækjatryggingar í gegnum smáforritið. 

    1.3 - Vátryggingatakar sem velja Ökuvísi sem tryggingaleið í ökutækjatryggingum fá aðgang og afnot af smáforritinu og mælitækinu sér og öðrum notendum ökutækisins að kostnaðarlausu. 

    1.4 - Forsenda þess að unnt er að gera og framkvæma samning um Ökuvísi er að ákvarðanir um iðgjöld og útgáfu trygginga séu teknar með sjálfvirkri ákvarðanatöku, m.a. með gerð persónusniðs. Sjálfvirk ákvarðanataka um útgáfu trygginga byggir á upplýsingum um möguleg vanskil og ágreining vegna tjónamála hjá VÍS og sjálfvirk ákvarðanataka um verð byggir á grunniðgjaldi og breytilegum þáttum sem geta haft áhrif til lækkunar á grunniðgjaldi. Breytilegir þættir ákvarðast af upplýsingum um aksturseinkunn  og fjölda ekinna kílómetra yfir mánaðartímabil. Vátryggingataki getur ávallt óskað eftir frekari upplýsingum um niðurstöðu sjálfvirkrar ákvarðanatöku, mótmælt henni eða fengið starfsmann VÍS til að yfirfara eða endurmeta hana með því að hafa samband í gegnum vis@vis.is eða í síma 560 5000.   

    1.5 - Um Ökuvísi gilda vátryggingaskilmálar félagsins um lögboðnar ökutækjatryggingar og kaskó ökutækjatryggingu eins og þeir standa á hverjum tíma og teljast þeir vera hluti af skilmála þessum. Þá gilda um Ökuvísi persónuverndarstefna Ökuvísis, sameiginlegir skilmálar félagsins og almennir viðskiptaskilmálar þess, sem má finna á heimasíðu VÍS, www.vis.is, ásamt skilmálum trygginganna sjálfra. 
  2. Upplýsingar um þjónustuveitanda  

    2.1 -Ökuvísir er tryggingaleið sem boðin er fram af VÍS og mælitækið og smáforritið eru eign VÍS. VÍS starfar samkvæmt lögum nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, og er með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og lýtur eftirliti þess í samræmi við lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. 
  3. Virkjun og auðkenning 

    3.1 - Nýskráning í smáforritið fer fram með rafrænum skilríkjum. Innskráning er gild í 30 daga. Ef notandi skráir sig út úr smáforritinu þarf að skrá sig aftur inn með sama hætti. 
  4. Öryggi 

    4.1 - Upplýsingar um ferðir vátryggingataka og/eða annarra notenda á hinu vátryggða ökutæki eru vistaðar í snjalltæki vátryggingataka og hjá þeim notendum sem eru með aðgang að smáforritinu, í grunnkerfum VÍS og hjá Cambridge Mobile Telematics (hér eftir „CMT“ eða „þjónustuaðili“) sem er þjónustuaðili VÍS. CMT veitir þjónustu á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni og byggja mælingar í smáforritinu og mælitækinu á lausn CMT. CMT fær sendar og vistar undir gerviauðkennum mælingar úr síma vátryggingataka og mælitækinu og reiknar út aksturseinkunn.  

    4.2 - Upplýsingar sem eru vistaðar í snjalltæki eru varðar með þeim öryggisráðstöfunum sem þar eru fyrir hendi. VÍS vistar upplýsingar um aksturseinkunn, ekna kílómetra og hrágögn. Öll hrágögn eru dulkóðuð og geymd undir gerviauðkennum í grunnkerfum VÍS. Gögn sem eru vistuð í grunnkerfum þjónustuaðila og öll samskipti milli grunnkerfa og farsíma eru einnig dulkóðuð og undir gerviauðkennum. 

    4.3 - Til að hægt sé að veita þá þjónustu sem er í boði í Ökuvísi er nauðsynlegt að vinna með ýmiss konar persónuupplýsingar. Nánari upplýsingar um meðferð, varðveislu, vinnslu persónuupplýsinga og rétt samkvæmt persónuverndarlögum, t.d. til aðgangs að upplýsingum er að finna í persónuverndarstefnu Ökuvísis

    4.4 - Til að auka öryggi við notkun smáforritsins skal gæta að eftirfarandi atriðum þegar smáforritið er sótt og sett upp í snjalltæki:

    a. Sækja smáforritið eingöngu frá Apple í App Store eða frá Google í Play Store
    b. Setja smáforritið ekki upp í snjalltæki með breyttu stýrikerfi, sem hefur verið breytt með t.d. svokölluðu „jailbreak“ eða öðrum sambærilegum breytingum. 
    c. Setja forritið eingöngu og aðeins upp á snjalltæki sem eru í eigu eða löglegri umsjá vátryggingataka og/eða annarra notenda. 
    d. Hvorki gera né láta gera breytingar á smáforritinu eða tengdum hugbúnaði.  
    e. Nota ekki smáforritið til að geyma eða dreifa ólögmætu, skaðlegu eða meiðandi efni eða efni í eigu þriðja aðila.
    f. Nota smáforritið ekki til að reyna að verða á ólögmætan hátt úti um aðgang að gögnum eða hugbúnaði annarra, ónýta þau eða skjóta undan. 
    g. Eiga ekki við né trufla virkni þjónustu, API eða vélbúnaðar. 
    h. Nota mælitækið eingöngu í samræmi við leiðbeiningar um notkun þess. Leiðbeiningarnar um notkun á mælitækinu má finna í smáforritinu, á heimasíðu VÍS www.vis.is og í kassanum sem mælitækið kemur í. 
    i. Reyna ekki að fá aðgang að þjónustu, API eða vélbúnaði mælitækisins í þeim tilgangi að búa til sambærilegt tæki til að nota í samkeppni við Ökuvísi eða CMT.  

    4.5 - Hafi ofangreindar leiðbeiningar ekki verið virtar eða átt hefur verið við snjalltækið eða mælitækið með þeim hætti að öryggi þess hafi á einhvern hátt verið ógnað, svo sem með uppsetningu á vafasömu forriti er notkun smáforritsins ekki örugg og því óheimil. 
  5. Skyldur VÍS og þjónusta í Ökuvísi  

    5.1 - VÍS skuldbindur sig til að veita vátryggingataka og/eða öðrum notendum Ökuvísis aðgang að smáforriti og mælitæki sem mælir og fylgist með aksturshegðun.  

    5.2 - VÍS skal birta í smáforritinu kort af ferðum í ökutækinu, upplýsingar um aksturshegðun, ábendingar um hvernig er hægt að bæta aksturshegðun og hvatningu til að keyra betur.  

    5.3 - VÍS skal tryggja andmælarétt á einfaldan og aðgengilegan hátt í gegnum smáforritið.  

    5.4 - VÍS skal tryggja að vátryggingataki og/eða notendur geti fengið útskýringar á aksturseinkunn á einfaldan og gagnsæjan hátt í smáforritinu.  

    5.5 - VÍS skuldbindur sig til að veita skýran rökstuðning fyrir ákvörðun um einkunnir og afslætti og leiðrétta og uppfæra þær ákvarðanir ef tilefni reynist til. 

    5.6 VÍS skuldbindur sig til að nota persónuupplýsingar ekki í öðrum tilgangi en kemur fram í persónuverndarstefnu Ökuvísis
  6. Skyldur og ábyrgð vátryggingataka og annarra notenda  

    6.1 - Vátryggingataki og/eða aðrir notendur bera ábyrgð á því að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja öryggisþætti sem notaðir eru til auðkenningar inn í smáforritið og snjalltækið.  

    6.2 - Vátryggingataki og/eða aðrir notendur bera ábyrgð á því að varðveita allt sem snertir öryggisþætti með tryggum hætti og því að aðgangsupplýsingar berist ekki í hendur óviðkomandi aðila eða séu aðgengilegar öðrum. Ekki má undir neinum kringumstæðum deila upplýsingum um persónubundna öryggisþætti, t.d. pin númeri og rafrænum skilríkjum, með öðrum.   

    6.3 - Ef vátryggingataki og/eða aðrir notendur hafa ástæðu til að ætla að óviðkomandi hafi komist yfir upplýsingar þeirra ber að láta VÍS vita eins fljótt og hægt er.  

    6.4 - Til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem eru í smáforritinu mælir VÍS með að virkja læsingar í snjalltækinu og nota og uppfæra snjalltækið í samræmi við öryggisleiðbeiningar frá framleiðanda.  

    6.5 - Vátryggingatakar og/eða aðrir notendur sem notast við snjalltæki með Android stýrikerfi skulu nota pin númer, fingrafara- eða andlitsskanna við innskráningu inn í snjalltækið.   

    6.6 - Notkun persónubundinna öryggisþátta jafngildir ávallt undirskrift. Séu persónubundnir öryggisþættir ekki varðveittir í samræmi við framangreint telst það vera stórfellt gáleysi. 

    6.7 - Ef aðrir einstaklingar nýta ökutækið er vátryggingataka skylt að setja límmiða sem upplýsir um Ökuvísi á áberandi stað í ökutækinu og upplýsa aðra ökumenn sérstaklega um Ökuvísi. Límmiðinn er sendur vátryggingataka á sama tíma og mælitækið. 

    6.8 - Með notkun á Ökuvísi fær vátryggingataki og/eða aðrir notendur aðgang að ráðleggingum um hvernig er hægt að bæta aksturinn og einkunn fyrir hversu öruggur aksturinn er. Vátryggingataki og/eða aðrir notendur bera fulla ábyrgð á notkun á smáforritinu og mælitækinu og að akstur og notkun á ökutækinu séu í samræmi við gildandi lög og reglur.  

    6.9 - Ef snjalltækið, sem smáforritið hefur verið sótt í, er selt eða öðrum heimiluð umráð þess, skal fjarlægja smáforritið áður úr snjalltækinu.  

    6. 10 - Ef ökutækið er selt á samningstíma tryggingarinnar eða við lok samnings skal fjarlægja mælitæki Ökuvísis úr bílnum og koma í förgun hjá VÍS eða á næsta förgunarstað. 
  7. Heimildir,fyrirvarar og takmörkun á ábyrgð VÍS 

    7.1 - Óheimilt er að breyta smáforritinu eða afrita. VÍS eða þriðji aðili er eigandi höfundarréttar, vörumerkja og annarra óefnislegra réttinda sem tengjast smáforritinu.  

    7.2 - VÍS ber ekki ábyrgð á notkun á smáforritinu eða á tjóni sem notkun smáforritsins kann að valda. 

    7.3 - VÍS getur ekki ábyrgst samfelldan og órofinn aðgang að smáforritinu. Smáforritið er almennt í boði 24 tíma á dag 7 daga vikunnar. Hins vegar er möguleiki á að aðgangur að smáforritinu eða aðgangur smáforritsins að kerfum VÍS eða þjónustuaðila rofni tímabundið vegna uppfærslu, viðhalds, þjónustuhlés, truflunar eða af öðrum svipuðum ástæðum. 

    7.4 - VÍS mun eins og kostur er tilkynna um þjónusturof með fyrirvara á heimasíðu sinni. VÍS er þó ekki skylt að tilkynna fyrir fram um truflanir á þjónustu sem er til skamms tíma og er minni háttar eða sem stafar af öryggisbresti eða öðrum óvæntum eða óviðráðanlegum ástæðum. 

    7.5 - Ef vátryggingataki og/eða aðrir notendur brjóta gegn skilmálum þessum eða öðrum skilmálum sem hafa verið samþykktir er VÍS heimilt að loka fyrir aðgang að smáforritinu. Hið sama á við ef vátryggingataki og/eða notendur verða uppvís að misnotkun eða tilraun til misnotkunar á upplýsingum sem eru aðgengilegar í smáforritinu eða kerfinu sjálfu. 
  8. Tilkynningar, breytingar og gildistaka  

    8.1 - VÍS áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum. VÍS getur birt tilkynningar um breytingar á skilmála í almennum tilkynningum í smáforritinu, á heimasíðu VÍS, og/eða í gegnum tölvupóst eða önnur rafræn skilaboð. 

    8.2 - Félaginu er heimilt að bæta við eða breyta skilmálanum hvenær sem er og taka þær breytingar gildi án fyrirvara ef þær eru til hagsbóta fyrir vátryggingataka og/eða notendur. Séu breytingar ekki til hagsbóta fyrir vátryggingataka og/eða notendur taka þær gildi með mánaðar fyrirvara. 

    8.3 - Sætti vátryggingataki og/eða notendur sig ekki við breytingu á skilmálum þessum geta þeir sagt upp viðskiptum sínum við félagið.  

    8.4 - Skilmálar þessi eru staðlaðir og verður ekki breytt af hálfu vátryggingataka og/eða notenda. Áritanir, útstrikanir, viðbætur og annars konar breytingar sem gerðar eru á þeim hafa ekki gildi gagnvart félaginu.  

Skilmálar þessir taka gildi 1. janúar 2021