Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Eldvarnir

Um helm­ing­ur bruna á heim­il­um teng­ist raf­magni og raf­magns­tækj­um. Þar af er helm­ing­ur út frá elda­vél­um eða 25% allra bruna á heim­il­um. Í kring­um jól og ára­mót eru brun­ar tengd­ir kert­um og kertaskreyt­ing­um al­geng­ast­ir.

Í Hand­bók heim­il­is­ins um eld­varn­ir sem Eld­varna­banda­lagið gaf út eru upplýsingar sem all­ir ættu að kynna sér. Bókina er einnig hægt að nálgast á ensku og pólsku.

Eld­varn­ar­búnaður

Á hverju heim­ili er nauðsyn­legt að hafa reyk­skynj­ara, slökkvi­tæki og eld­varn­arteppi. Mátt­ur þessa eld­varn­ar­búnaðar er mik­ill, kostnaður og fyr­ir­höfn við að koma hon­um fyr­ir er lít­ill og því ætti ekk­ert að koma í veg fyr­ir að þetta sé til staðar.

Reyk­skynj­ar­ar

Mann­tjón og meiðsl verða helst í elds­voða þegar fólk sef­ur. Það er því for­gangs­atriði í eld­vörn­um á heim­il­inu að tryggja að íbú­ar verði sem fyrst var­ir við eld og reyk á heimilinu. Virk­ir reyk­skynj­ar­ar eru ein­föld og ódýr leið til þess. Sam­kvæmt bygg­ing­a­reglu­gerð eiga reyk­skynj­ar­ar að vera á hverju heim­ili. Skynj­ar­ar sem nema hita, gas og kol­sýr­ing auka enn frek­ar á ör­yggi þar sem það á við.

Einn reykskynjari ætti að vera í hverju rými og er unnt að tengja marga reyk­skynj­ara sam­an. Það er æski­legt í stór­um hús­um því þá gera all­ir skynj­ar­ar viðvart um leið og einn fer í gang. Sam­tengd­ir skynj­ar­ar eru ým­ist þráðlaus­ir eða tengd­ir sam­an með vír. Einnig er hægt að vera með vaktað brunaviðvör­un­ar­kerfi annað hvort í síma eða hjá öryggisfyrirtæki.

Staðsetn­ing

Setjið reyk­skynj­ara sem næst miðju lofts og aldrei nær vegg eða ljósi en sem nem­ur 30 sm. Reyk­skynj­ari ætti að vera í öll­um rým­um heimilisins og ef lang­ur gangur er á heimilinu skal setja skynj­ara við báða enda.

Skynj­ari á að vera í bíl­skúr og er best að tengja hann við reyk­skynj­ara í íbúðinni. Sé bíll geymd­ur í bíl­skúr getur út­blást­urs­reyk­ur sett reyk­skynj­ara af stað. Í slík­um til­vik­um er rétt að nota hita­skynj­ara. Þeir eru sett­ir í loft eins og reyk­skynj­ar­ar.

Viðhald og end­ur­nýj­un

Reyk­skynj­ara þarf að prófa a.m.k. árlega. Gott er að leyfa heim­il­is­fólk­inu að heyra hljóðið í skynj­ar­an­um. Margir reyk­skynj­ar­ar hafa 9 volta raf­hlöðu sem þarf að skipta um ár­lega. Til eru reyk­skynj­ar­ar sem hafa raf­hlöðu sem hef­ur 10 ára líf­tíma og er þá reyk­skynj­ar­inn end­ur­nýjaður að þeim tíma liðnum. Ef stutt hljóðmerki heyr­ist frá skynj­ar­an­um á um það bil mín­útu fresti þarf að end­ur­nýja raf­hlöðuna. Í þeim reyk­skynj­ur­um sem hafa 9 vatta raf­hlöðu er gott að end­ur­nýja raf­hlöðuna á sama tíma, til dæm­is 1. des­em­ber. Nauðsyn­legt er að prófa reyk­skynj­ar­ann þegar skipt hef­ur verið um raf­hlöðu.

Líf­tími reyk­skynj­ara er almennt um tíu ár. Gott er að skrá á bak­hlið skynj­ar­ans hvaða ár hann var sett­ur upp. Skynj­ar­inn end­ist bet­ur ef hann er ryk­sugaður að inn­an í hvert sinn sem skipt er um raf­hlöðu.

Slökkvi­tæki

Slökkvi­tæki til heim­il­is­nota henta á mis­mun­andi teg­und­ir elds sem er flokkaður í A, B og C:

  • A-flokkur: Eldur í föstum efnum, svo sem húsgögnum og innréttingum.
  • B-flokkur: Eldur í eldfimum vökva.
  • C-flokkur: Eldur í gasi.

Dufts­lökkvi­tæki (A, B, C) eru öfl­ug og mjög áhrifa­rík á eld í föst­um efn­um, olíu og gasi og henta því mjög vel á heim­il­um og í bíl­inn. Einnig er mælt með þeim í sum­ar­hús án kynd­ing­ar því duftið þolir mikið frost. Helsti gall­inn við dufts­lökkvi­tæki er að duftið dreif­ist víða sem gerir hreinsistarf að eldsvoða loknum erfiðara.

Létt­vatns­tæki (A, B) eru einnig góð slökkvi­tæki og eru mest tekin á heimili hér á landi. Þau henta þó ekki á gas.

Notk­un slökkvi­tækja

Leiðbein­ing­ar um notk­un eiga að vera á tæk­inu. Kynnið ykk­ur þær. Slökkva má minni­hátt­ar eld með hands­lökkvi­tæki og er efn­inu þá beint að rót­um elds­ins. Þegar slökkvi­tæki er beint að eldi í raf­magns­tæki ber að standa í að minnsta kosti 1 m fjar­lægð frá tæk­inu.

Ávallt skal þó leggja áherslu á:

1. Að setja ykk­ur sjálf eða aðra aldrei í hættu.
2. Að hringja ávallt í 112 og óska eft­ir aðstoð slökkviliðs.
3. Að börn komi sér út en reyni ekki að slökkva eld.
Ef ekki er unnt að slökkva eld er brýnt að yf­ir­gefa rýmið og loka því ef hægt er og láta nágranna vita.

Staðsetn­ing slökkvi­tækja

Slökkvi­tæki á að festa á vegg með til­heyr­andi búnaði þannig að þægi­legt sé að taka það af veggn­um til notk­un­ar. Hand­fangið er þá í 80-90 sm hæð frá gólfi. Setja á tæk­in við flótta­leið og sem næst út­göng­um. Slökkvi­tæki eru ör­ygg­is­tæki. Þau eiga því að vera sýni­leg og aðgengi­leg þegar gengið er um íbúðina svo að all­ir viti hvar þau eru ef nauðsyn­legt reyn­ist að nota þau.

End­ur­nýj­un og viðhald

Slökkvi­tæki hafa tak­markaðan líf­tíma og þau þarf að yf­ir­fara reglu­lega. Upp­lýs­ing­ar um viðhald og end­ur­nýj­un eiga að vera á tæk­inu. Leitið einnig upp­lýs­inga um viðhald og end­ur­nýj­un hjá selj­end­um.

Eld­varna­teppi

Tals­verð eld­hætta fylg­ir eldamennsku sér í lagi notk­un olíu og feiti í eld­hús­um. Eldvarnateppi ætti því að vera í öllum eldhúsum. Staðsett á sýni­leg­um og aðgengi­leg­um stað. Þó ekki svo nærri elda­vél að erfitt verði að ná til þess ef eld­ur log­ar í potti eða pönnu.

Ef eld­ur kvikn­ar í olíu eða potti er nauðsyn­legt að bregðast rétt við:

  • Skvettið alls ekki vatni á eld­inn. Það veld­ur spreng­ingu.
  • Reynið ekki að fara út með log­andi pott/​pönnu.
  • Leggið eld­varna­teppi eða pott­lok yfir log­andi pott/​pönnu og þéttið að uns eld­ur­inn hef­ur slokknað sem get­ur tekið nokkr­ar mín­út­ur. Verjið hend­ur gegn hit­an­um eins og kost­ur er.
  • Slökkvið und­ir hell­unni ef þið getið. Sé elda­vél­in með sléttu hellu­borði má færa pott­inn/​pönn­una var­lega af hell­unni.

Gasskynj­ari

Lít­il lykt er af gasi og eng­inn lit­ur. Gas­leki get­ur því auðveld­lega átt sér stað án þess að nokk­ur átti sig á því. Af­leiðing­arn­ar geta verið mjög al­var­leg­ar. Til að mynda spreng­ing af litl­um neista við að kveikt er á gaselda­vél eða bara frá stöðuraf­magni í föt­um. Gas í and­rúms­lofti get­ur líka haft al­var­leg­ar lík­am­leg­ar af­leiðing­ar og jafn­vel valdið dauða. Gasskynj­ari þarf því að vera til staðar allsstaðar þar sem gas er notað inn­an­dyra. Þar sem gas er þyngra en and­rúms­loft leit­ar það niður. Því þarf að festa skynj­ar­ann neðan á sökk­ul í eld­húsi eða í sam­bæri­legri hæð í öðrum rým­um.

Þar sem gas­hylki eða búnaður tengd­ur því er geymd­ur, t.d. í bíl­skúr­um, er mjög áríðandi að setja gasskynj­ara við gólf ná­lægt búnaði og kút­um. Gaskút­ar verða að standa upp­rétt­ir á stöðugri und­ir­stöðu.

Eld­stæði

  • Sækja þarf um leyfi byggingafulltrúa áður en eldstæði eru sett upp.
  • Veljið viðurkenndan búnað, fáið fagmann í uppsetningu og frágang og fylgið leiðbeiningum um notkun.
  • Tryggið aðstreymi fersks lofts til að stjórna megi brunanum og koma í veg fyrir að súrefnisskortur setji fólk í hættu. Setjið kolsýringsskynjara í loft.
  • Varist snertingu við heita hluta tækjanna. Mælt er með því að kamínur og rör séu einangruð eins og kostur er.
  • Notið öryggis- og neistagrind.
  • Hreinsið eða látið hreinsa tækin reglulega. Gott er að miða við að ef tækin eru notuð einu sinni á dag þarf að hreinsa þau einu sinni á ári.
  • Farið ekki að sofa eða yfirgefið húsnæðið meðan logar enn í eldstæðinu.  
  • Ekki brenna hluti sem gefa frá sér heilsuspillandi reyk, svo sem plast- og gúmmíefni.

Et­anól-arn­ar

  • Í etanól-örnum er etanól brennt í opnum skálum. Veruleg eldhætta getur stafað af notkun þeirra. Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um uppsetningu og notkun.
  • Arininn þarf að hengja á eða láta standa á stöðugu og óbrennanlegu undirlagi.
  • Fjarlægð að brennanlegu efni má ekki vera minni en 1 m.
  • Herbergið má ekki vera minna en 23 m2 en eftir því sem arinninn er stærri og eldsneytismagnið meira þarf stærra rými. Arininn má ekki nota í kjallara og svefnherbergjum.
  • Mikilvægt er að loftræsting sé nægjanleg.

Nokkr­ar ábend­ing­ar við notk­un et­anól-arna:

  • Aldrei má bæta við etanóli eftir að tendrað hefur verið í arninum.
  • Eingöngu má flytja arininn þegar ekkert eldsneyti er í honum.
  • Látið ekki loga í arninum án eftirlits fullorðinna.
  • Ekki má nota aðra gerð eldsneytis en framleiðandi mælir með. Öll ílát undir eldsneyti eiga að vera með barnalæsingu og geymast á öruggum stað.
  • Eingöngu má slökkva í eldsneytinu með þar til gerðum lokunum, þar sem þær eru fyrir hendi. Annars verður að láta eldsneytið brenna upp. Ekki má nota vatn til þess að slökkva eld í etanól-arni.

Gas

Veljið viður­kennd­an búnað í sam­bandi við gasið og fáið fag­mann til að koma tækj­un­um fyr­ir. Skipta þarf um slöng­ur á um fimm ára fresti og er þá ráðlegt að láta yf­ir­fara ann­an búnað. Ýmis búnaður eyk­ur ör­yggi við notk­un á gasi, svo sem búnaður sem lok­ar fyr­ir gasstreymi ef slanga gef­ur sig. Ekki fúska við gas!

Geymsla á gasi

Geyma á gaskúta á vel loftræst­um stöðum. Sé gas geymt í lokuðum skáp ber að tryggja loftræst­ingu bæði ofan til og við botn. Æskileg­ast er að geyma gaskúta ut­an­dyra í læst­um og merkt­um skáp. Ef gaskút­ur er geymd­ur ut­an­dyra er mik­il­vægt að snjór og vatn kom­ist ekki að hon­um þar sem vatnið get­ur frosið í þrýsti­jafn­ar­an­um og eyðilagt hann. Síðan þegar gasið er notað næst þá flæðir gasið allt út í einu með því eld­hafi sem get­ur fylgt.

Inni í íbúðar­hús­um, bíl­skúr­um og sum­ar­hús­um má að há­marki hafa einn 11 kg gaskút. Í geymsl­um fjöl­býl­is­húsa má geyma 5 kg gaskúta með viðeig­andi loftræst­ingu. Þar sem gas­hylki eða búnaður tengd­ur því er inn­an­húss er mjög áríðandi að setja gasskynj­ara við gólf ná­lægt búnaði og kút­um. Gaskút­ar verða að standa upp­rétt­ir á stöðugri und­ir­stöðu.

Í hús­bíl­um og ferðavögn­um má hafa tvö 11 kg gas­hylki, eitt í notk­un og annað til vara. Æskilegt er að hafa rými þar sem gaskút­ar eru í notk­un ólæst til þess að ut­anaðkom­andi geti skrúfað fyr­ir gasið í neyð.

Útigrillið

Fylg­ist vel með þegar verið er að grilla og bregðist við áður en mik­ill eld­ur kem­ur upp í grill­inu. Var­ist að grilla of nærri timb­ur­vegg eða glugga með stór­um rúðum. Skrúfið fyr­ir gaskút­inn að notk­un lok­inni.

Kerti og skreyt­ing­ar

  • Rafmagnskerti eru ávallt öruggust.
  • Festið logandi kerti tryggilega á eldtrega og stöðuga undirstöðu.
  • Hafið þau ekki of nærri hitagjafa, svo sem ofni eða sjónvarpi. Logandi kerti á ekki að standa ofan á raftæki.
  • Hafið þau ekki nærri efnum sem auðveldlega getur kviknað í.
  • Öruggast er að nota kramarhús, sjálfslökkvandi kerti eða kertaslökkvara í skreytingar. Sé það ekki gert er mikilvægt að láta skraut ekki liggja að kerti, eldverja skreytinguna og slökkva tímanlega á kertunum.
  • Farið aldrei frá logandi kerti og látið börn ekki komast í eldfæri eða logandi kerti.
  • Gætið að dýrum nærri logandi kertum. Þau geta verið forvitin og farið í eldinn.

Rým­ingaráætl­un

Nauðsyn­legt er að fjöl­skyld­an geri áætl­un um hvernig yf­ir­gefa á heim­ilið ef eld­ur kem­ur upp. Slík áætl­un get­ur ráðið úr­slit­um um hvort all­ir kom­ast heil­ir út. Ef unnt er skal loka rým­inu þar sem eld­ur log­ar. Það tef­ur út­breiðslu elds og reyks.

Best er að öll fjöl­skyld­an taki þátt í að gera áætl­un­ina og æfi hana síðan. For­eldr­ar og for­ráðamenn bera að sjálf­sögðu ábyrgð á rým­ingu íbúðar­inn­ar og ber að forðast að ræða þannig við börn um eld­varn­ir að það skapi ótta. Brýnið þó fyr­ir ung­um börn­um að þau megi ekki fela sig inni í skáp eða und­ir rúmi. Mörg dæmi eru um að slökkviliðsmenn hafi átt erfitt með að bjarga börn­um úr brenn­andi hús­um vegna þessa.

Við gerð flótta­áætl­un­ar þarf að hafa eft­ir­far­andi í huga:

  • Tvær greiðar leiðir eiga að vera út úr íbúðinni og húsinu. Komið fyrir neyðarstiga þar sem þörf krefur.
  • Að allir viti að þeir eiga að fara út um leið og elds verður vart. Hringið á slökkvilið í 112 eins fljótt og auðið er.
  • Ákveða þarf fyrirfram stað þar sem allir hittast þegar út er komið. Þannig má ganga úr skugga um hvort allir hafi skilað sér út.

Flótta­leiðir og rým­ing í fjöl­býli

Slökkvilið gef­ur út fyr­ir­mæli um rým­ingu og ber að fylgja þeim. Þegar brenn­andi íbúð er yf­ir­gef­in út í stiga­gang er brýnt að loka dyr­un­um á eft­ir sér. Ann­ars fyll­ist stiga­gang­ur­inn af reyk og aðrir íbú­ar kom­ast ekki út.

Flótta­leiðir í fjöl­býli eru stiga­gang­ar og sval­ir. Aðgang­ur að svala­dyr­um á að vera greiður og auðvelt þarf að vera að opna þær. Flótta­leiðir eiga að vera opn­an­leg­ar inn­an frá án lyk­ils. Notið stiga­ganga ekki sem geymsl­ur.

Lyft­ur má aldrei nota í elds­voða því þær geta stöðvast á þeirri hæð sem eld­ur log­ar og fyllst af reyk. Hver íbúð er sér­stakt bruna­hólf. Ef reyk­ur er í stiga­gangi er ör­ugg­ara að halda sig inni í íbúðinni og láta vita af sér við glugga eða á svöl­um. Það má til dæm­is gera með því að setja ljóst klæði út um glugga eða á sval­ir.

Efnið að ofan er unnið úr bæk­lingi Eld­varna­banda­lags­ins.

Sjálfs­íkveikj­ur

Vel þekkt er að kviknað get­ur m.a. í viðarol­íu í tusk­um, svampi eða öðru slíku og er þá getið um þá hættu á umbúðunum. En sjálfs­íkveikja get­ur einnig orðið í þvotti sem smitaður er mat­ar- eða nuddol­íu jafn­vel þótt hann hafi verið þveg­inn því það get­ur enn verið tals­vert eft­ir af olíu sem ekki þvæst úr tauinu.

Það sem ger­ist er að inni í hrúg­unni verður efna­hvarf sem mynd­ar hita. Því stærri sem hrúg­an er, því meiri verður ein­angr­un­in og hita­stigið hækk­ar hraðar. Að lok­um verður hit­inn það mik­ill að eld­ur kvikn­ar.

Ýmis bleiki­efni í þvotti geta aukið þessa áhættu en eft­ir að þvott­ur er þveg­inn þá er ut­anaðkom­andi hiti líkt og þurrk­ari skil­yrði til að eld­ur kvikni. Áhætta á brun­um er mest hjá fyr­ir­tækj­um en get­ur líka verið til staðar á heim­il­um, m.a. þegar viðarol­ía hef­ur verið bor­in á hús­gögn eða matarol­ía þerruð upp.

Vinnu­regl­ur til að draga úr hættu á sjálfs­íkveikju:

  • Bleyta olíublautar tuskur, setja þær í poka og lofttæma pokann.
  • Þvo olíusmitaðan þvott strax.
  • Ekki nota þurrkara þegar olíusmitaður þvottur er þveginn. Ef þurrkari er notaður láta hann enda á 10-15 mín. kæliprógrammi eða nota krumpuvarna stillingu á heimilisþurrkurum.
  • Láta þurrkara klára prógrammið og geyma þvottinn aldrei í þurrkaranum eftir að hann er búinn. Heldur dreifa úr þvotti meðan hann kólnar niður í herbergishita
  • Gæta þess að lósía sé ávallt hrein.

Mik­il­vægt er að all­ir hugi að eig­in eld­vörn­um. Að virkt brunaviðvör­un­ar­kerfi og slökkvi­tæki séu til staðar hjá fyr­ir­tækj­um, starfs­menn þjálfaðir í notk­un slökkvi­tækja og á heim­il­um séu reyk­skynj­ar­ar, slökkvi­tæki og eld­varn­arteppi til staðar.

Kast­ljós var með um­fjöll­un um sjálfs­íkveikj­ur í þvotti og tusk­um sem áhuga­vert er að sjá.