Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 13.12.2018

Brunar á heimilum flestir í desember

Tölfræði tjóna hjá VÍS sýnir að flestir brunar á heimilum eiga sér stað í desember og þar fast á eftir fylgir janúar. Algengustu brunar á þessum tíma eru vegna kerta og eldavéla og eru nú þegar farnar að koma inn tilkynningar um bruna í kertaskreytingum.

Mikilvægt er að fylgjast vel með kertum sem hafa verið tendruð og muna að slökkva á þeim. En þau krosstré geta brugðist og því má aldrei hafa umgjörð kerta með þeim hætti að hætta sé á að kvikni í út frá þeim ef gleymist að slökkva eða ef herbergi er yfirgefið í skamma stund.

Algengt er að sjá skreytingar í verslunum og á samfélagsmiðlum þar sem þessa er ekki gætt. Oft eru ótryggar undirstöður, kerti sem standa of þétt saman en 10 sm verða að vera á milli þeirra og skraut, greni eða annað sem liggur alveg upp við kertin. Allt þetta bíður hættunni heim sem er aldrei áhættunnar virði þó að skreytingin sé falleg.

Óvenju margir stórir brunar hafa orðið hjá VÍS þetta árið. Ekki aðeins hjá fyrirtækjum heldur líka heimilum. Þriðjungs fjölgun varð á tíðni bruna á heimilum á milli áranna 2015 og 2016. Sem betur fer hefur sú þróun ekki haldið áfram heldur hefur brunum á heimilum fækkað frá 2016 og það sem liðið er núna af árinu eru teikn á lofti um að sú þróun haldi áfram.

VÍS ósk­ar þess að lands­menn eigi ör­ugga aðventu og jóla­hátíð og hvet­ur alla til þess að tryggja að virk­ir reyk­skynj­ar­ar, eld­varna­teppi og yf­ir­farið slökkvi­tæki séu til staðar á heim­il­inu og á stað sem all­ir vita um.

Af gefnu tilefni viljum við eins ítreka fyrir fólki að lögbundin brunatrygging tryggir ekki innbú heimilisins. Einungis húsið sjálft og veggfasta hluti sem eru skildir eftir við flutning. Innbústrygging verður að vera til staðar svo innbú fáist bætt úr bruna en af og til koma upp tilfelli þar sem þá vernd vantar er bruni á sér stað.