Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 25.02.2021

Jörð skelfur á suðvestur horninu

Móðir náttúra er að minna á sig þessa dagana. Þó svo að jarðskjálftar geri sjaldnast boð á undan sér þá vitum við núna að það má búast við þeim áfram á suðvestur horninu og þá jafnvel stórum skjálfta.

Það er mikilvægt að vita réttu viðbrögðin við jarðskjálftum og hvað hægt er að gera heima til að vera öruggari þar og minnka líkur á tjónum. Það getur gert gæfumuninn að vera búin að sinna forvörnunum og ákveða hvernig við ætlum að bregðast við ef stór skjálfti kemur.

For­varn­ir á heim­il­inu

  • Festa skápa og hillur við veggi og/eða gólf.
  • Hafa þunga hluti, t.d. styttur, ekki ofarlega í hillu.
  • Festa sjónvörp við borð eða veggi.
  • Hafa rúm ekki undir gluggum.
  • Festa myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur.
  • Setja öryggislæsingar á skápa til að varna því að brothættir hlutir detti út úr þeim.

Viðbrögð við jarðskjálfta

  • Þegar jarðskjálfti verður er mikilvægt að hver og einn verji sig fyrir slysum. Einkunnarorð þar eru að krjúpa, skýla og halda. Gott getur verið að fara í horn á herbergi eða undir borð eða annað sem veitir skjól. Ekki er mælt með því að hlaupa út, sérstaklega ef um einhverja vegalengd þarf að fara, þar sem erfitt er að fóta sig þegar allt er á hreyfingu.
  • Eftir jarðskjálftann verjið fætur með því að fara í skó.
  • Ef vatnslagnir hafa gefið sig skrúfið fyrir vatnsinntakið.
  • Ef gaseldavél er á heimilinu skrúfið fyrir gaskútinn þar sem möguleiki er á að samskeyti hafi farið í sundur.
  • Ef slys verður á fólki hringið í 112.

Nánari upplýsingar má finna á vis.is.