Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 13.02.2020

Snælduvitlaust veður í vændum

,,Spáin fyrir morgundaginn er mjög slæm" segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni. Einstaklingum er bent á neyðarnúmerið 112 ef aðstoð vantar vegna foks til að hægt sé að kalla til viðbragðsaðila.

,,Spáin fyrir morgundaginn er mjög slæm" segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni. Hann segir að við eigum von á mjög djúpri lægð og miklu hvassviðri. Meðalvindi allt að 33 m/s og staðbundnum hviðum að 50 m/sek. Sunnanlands hvessir mjög um miðja nótt og nær hámarki milli kl. 06 og 12. Það er  ljóst að þetta verður snælduvitlaust veður. Óhætt er að vara fólk við að vera á ferðinni, sérstaklega á Suðurlandi, Suðurnesjum og í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins sem og í Borgarfirði. Einnig á Norðurlandi, sérstaklega í Húnaþingi og í Skagafirði. Á Norðurlandi og á Vestfjörðum verður ekki jafn hvasst og annars staðar á landinu en á móti kemur hríðarveður. Ófærð er líkleg, einkum norðan- og austan til og sunnanlands. Vestanlands verður skeinuhætt hviðuveður.

Veðrið á morgun mun því hafa umtalsverð áhrif á daglegt líf okkar. Því versta veðrið verður á vinnu- og skólatíma. Búast má við að foktjón geti orðið vegna veðursins og því mikilvægt að allir geri ráðstafanir til minnka líkur á þeim.  

Hafðu í huga að:

Í dag:

  • Færa lausa muni inn, ef hægt er.
  • Festa munina niður, ef ekki er hægt að setja þá inn.
  • Loka gluggum og hurðum vel, svo þeir fjúki ekki upp.

Á morgun:

  • Fylgstu vel með
  • Passaðu upp á útidyrahurðir þegar þær eru opnaðar, sér í lagi upp á klemmuslys.
  • Slepptu því að fara lengri ferðir á meðan veður gengur yfir.
  • Ef þú ætlar ætlar að keyra innanbæjar, gættu þess að leggja bílnum upp í vindinn.
  • Hafðu í huga að miklar hviður geta orðið við byggingar.
  • Passaðu upp á bílhurðir þegar þær eru opnaðar.
  • Pössum börnin, best er að leiða þau.