,,Spáin fyrir morgundaginn er mjög slæm" segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni. Hann segir að við eigum von á mjög djúpri lægð og miklu hvassviðri. Meðalvindi allt að 33 m/s og staðbundnum hviðum að 50 m/sek. Sunnanlands hvessir mjög um miðja nótt og nær hámarki milli kl. 06 og 12. Það er  ljóst að þetta verður snælduvitlaust veður. Óhætt er að vara fólk við að vera á ferðinni, sérstaklega á Suðurlandi, Suðurnesjum og í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins sem og í Borgarfirði. Einnig á Norðurlandi, sérstaklega í Húnaþingi og í Skagafirði. Á Norðurlandi og á Vestfjörðum verður ekki jafn hvasst og annars staðar á landinu en á móti kemur hríðarveður. Ófærð er líkleg, einkum norðan- og austan til og sunnanlands. Vestanlands verður skeinuhætt hviðuveður.

Veðrið á morgun mun því hafa umtalsverð áhrif á daglegt líf okkar. Því versta veðrið verður á vinnu- og skólatíma. Búast má við að foktjón geti orðið vegna veðursins og því mikilvægt að allir geri ráðstafanir til minnka líkur á þeim.  

Hafðu í huga að:

Í dag:

  • Færa lausa muni inn, ef hægt er.
  • Festa munina niður, ef ekki er hægt að setja þá inn.
  • Loka gluggum og hurðum vel, svo þeir fjúki ekki upp.

Á morgun:

  • Fylgstu vel með veðri.
  • Passaðu upp á útidyrahurðir þegar þær eru opnaðar, sér í lagi upp á klemmuslys.
  • Slepptu því að fara lengri ferðir á meðan veður gengur yfir.
  • Ef þú ætlar ætlar að keyra innanbæjar, gættu þess að leggja bílnum upp í vindinn.
  • Hafðu í huga að miklar hviður geta orðið við byggingar.
  • Passaðu upp á bílhurðir þegar þær eru opnaðar.
  • Pössum börnin, best er að leiða þau.

Ef óska þarf eftir aðstoð vegna foktjóns skal hringja í 112 og óska eftir aðstoð viðbragðsaðila.