Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn |16.09.2020

Línurnar hafa mikið að segja

Það kemur ökumanni sem ætlar að beygja út af vegi um leið og einhver ætlar að taka fram úr honum oft á óvart að hann er ekki endilega í fullum rétti.

Umferðarslys þar sem ökumaður beygir til vinstri út af vegi um leið og einhver ætlar að taka fram úr koma reglulega inn á borð Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum þar sem ágreiningur er um hver er í rétti. Það kemur þeim sem ætlar að beygja oft á óvart að hann er ekki endilega í fullum rétti. Ástæða þess er að hann hefur þá ábyrgð að gæta að umferð sem á eftir kemur.

Oft á tíðum eru þetta alvarleg slys þar sem hraði þess sem er að taka fram úr er oft á tíðum nokkur. Við mat á sök í þessum slysum skipta línur á malbiki miklu máli þegar verið er að meta hver er í rétti. Það hvort lína sé t.d. heil, hálfbrotin (línan þrisvar sinnum lengri en bilið) eða fullbrotin (línan einn þriðji af bilinu) getur skipt öllu. Það að hafa gefið stefnuljós hefur oft ekki úrslitavaldið enda oft á tíðum erfitt að sanna að stefnuljósið hafi verið gefið nægjanlega snemma. En stefnuljós skipta gríðarlega miklu máli til að koma í veg fyrir þessi slys og þá stefnuljós sem er gefið með góðum fyrirvara en ekki þegar búið er að hægja á sér eða rétt í þann mund sem verið er að fara að beygja.