Framundan er ein stærsta ferðahelgi ársins ─ sem er ekki skrýtið því nú skartar landið sínu fegursta. Það nefnilega jafnast ekkert á við íslenskt sumar.  Fuglasöngur í guðsgrænni náttúrunni, lækjarnið í faðmi hárra fjalla og svo drottningin sjálf ─  sólin hátt á lofti. Ógleymanlegar minningar með fjölskyldu og vinum. Er hægt að biðja um meira?

Við skulum leggja okkur fram og skapa góðar minningar. Leggjum grunninn að öruggu fríi. Með nokkrum atriðum getum við tryggt öryggi fjölskyldunnar ─ þannig að allir komi heilir heim úr frábæru fríi. Áður en lagt er í ´ann þá er mikilvægt að fara vel yfir veðurspána. Hugaðu sérstaklega að vindaspánni ef þú ætlar að taka eftirvagninn með. Ef þú ætlar að elta sólina, ekki gleyma sólarvörninni.

Spennum beltin

Við skulum aldrei gefa afslátt af bílbeltanotkun ─ notum alltaf bílbelti ─ sama hversu stutt vegalengdin er og hvar við erum að keyra. Passaðu uppá á að allir í bílnum séu með beltin spennt. Svo er mikilvægt að skorða farangurinn vel af í bílnum, svo hann fari ekki á flug ef þú þarft að nauðhemla. Hugaðu að hraðanum ─ keyrðu alltaf á löglegum hraða. Ef þú ætlar að taka framúr næsta bíl, taktu þá tillit til aðstæðna. Eru aðstæður í lagi ─ má ég taka framúr? Ekki gleyma að vera úthvíldur áður en lagt er af stað. Ef þú finnur fyrir þreytu, skaltu leggja bílnum og fá þér kríu.

Akstur á malarvegum

Dragðu vel úr hraðanum þegar þú kemur á malarveg. Gættu vel að steinkasti og hægðu vel á þegar þú mætir öðrum bíl. Ef rúðan brotnar vegna steinkasts á malarvegi er gott að setja límrúðulímmiða yfir sprunguna, en athugaðu að hún má ekki vera stærri en ca. 100 króna peningur að stærð. Vertu með fulla athygli við aksturinn ─ og láttu símann alveg vera. Ekki borða á meðan þú ert að keyra og láttu aðra um að stjórna tónlistinni. Þá ertu í topp málum!

Tjaldsvæðið

Þegar þú ert kominn á tjaldsvæðið, vertu þá vakandi fyrir öllum börnunum sem eru þar að leik. Gott er að láta einhvern leiðbeina sér, ef bakka þarf með eftirvagninn. Svo má ekki gleyma því að börnin eru eflaust spennt að fara að leika sér ─ því er mikilvægt að fara með þau um svæðið.  Bentu þeim á kennileiti svo þau rati um svæðið. Svo þegar búið er að tjalda og allt klárt, skaltu huga að eldvörnum. Ekki gleyma að taka með þér eldvarnarteppi og slökkvitæki. Passaðu líka uppá gasið.

Góða ferð um landið okkar ─ og njóttu þess í botn sem það hefur uppá að bjóða. Hafðu það gott í fríinu og komdu heil/heill heim.

 

Gleðilegt sumar!