Gul viðvörun er fyrir allt landið í dag og í raun leiðindaveðri spáð meira og minna út vinnuvikuna. Við hvetjum alla til að taka fullt mark á viðvörunum og skoða færð. Sér í lagi, ef þú ert að fara yfir heiðar eða aka við fjöll á þekktum vindastöðum.

Á suðvesturhorninu er í dag spáð SV 25 m/sek meðalvindi í opinni vindátt. Hætta getur verið á eignatjóni í slíku veðri. Huga þarf sérstaklega að lausum munum utandyra, hurðum þegar þær eru opnaðar eða akstri þegar ekið er um í þeirri færð sem verður. Spáð er að veðrið byrji milli kl. 14 og 15 og getur skyggni orðið erfitt, krapahríð, slæmt skyggni og hálka sem getur verið akandi og gangandi erfið. Gott er að taka mið af þessum aðstæðum þegar farið er heim úr vinnu, börn sótt og frístundir skipulagðar. Veðrið gengur svo yfir landið, en ekki fer að lægja t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu fyrr en undir morgun.