18. mars voru upplýsingar í þessari frétt uppfærðar. Mikilvægt að allir séu með réttar upplýsingar en á þessari síðu er bætt við spurningum eftir þörfum og þar eru líka aðrar upplýsingar um COVID-19 og forvarnir sem við höfum lagt fram.

Mikið hefur verið fjallað um útbreiðslu COVID-19 veirunnar og möguleg áhrif hennar á ferðalög okkar erlendis. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar um COVID-19 veiruna og ferðatryggingar sem aðstoða þig og þína nánustu við að vera upplýst og takast á við óvissuna sem hún skapar. Til að ferðakostnaður þ.e. flug­far­gjald og gi­sti­kostnaður sé bættur þá verða stjórn­völd hér á landi að hafa sett á fyrirmæli um op­in­bera sótt­kví eða að um sé að ræða önn­ur op­in­ber höft vegna far­sótt­ar sem leiða til þess að ferðamenn komist ekki í fyrirhugaða ferð. 

Ef þú ert á ferðalagi eða í ferðahug og finn­ur ekki svör við þeim spurn­ing­um sem kynnu að vakna, ekki hika við að hafa sam­band og við ger­um okk­ar besta til að finna út úr því með þér.

 • Á ég rétt til bóta úr forfalla- og ferðatryggingum vegna COVID-19?
  Við bendum á að viðskiptavinir þurfa ávallt að sækja rétt sinn til endurgreiðslu til ferðaskrifstofu, flugfélags eða gistisala áður en krafa er gerð um bætur í ferða- og forfallatryggingu. Ef flugi er aflýst stofnast réttur til endurgreiðslu hjá flugfélögum skv. EES-reglum. Við bendum á að ef hætt er við flugferð er ávallt réttur til endurgreiðslu á flugvallarsköttum og öðrum gjöldum. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Samgöngustofu. Ef ferðaskrifstofa aflýsir pakkaferð eiga viðskiptavinir rétt á fullri endurgreiðslu ferðar samkvæmt lögum um pakkaferðir. Ef þú sjálf/sjálfur ákveður að hætta við bókaða pakkaferð hjá ferðaskrifstofu kann að vera fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Neytendastofu. Við viljum einnig benda á að mörg flugfélög eru nú að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að breyta bókunardagsetningum ferðar að kostnaðarlausu eða inneign sem hægt er nýta síðar.

 • Ég hygg á ferðalög á næst­unni. Er mér óhætt að bóka ferð?
  Hafa ber í huga að ef far­bann eða önn­ur op­in­ber höft eru í gildi á þeim tíma sem ferð er bókuð, og eru enn í gildi á brott­far­ar­degi, kann það að hafa áhrif á bóta­rétt þinn úr for­falla­trygg­ingu. Við mælum með að fólk fari eftir ráðleggingum Sóttvarnarlæknis til ferðamanna.

 • Hvað er op­in­ber sótt­kví?
  Op­in­ber sótt­kví er ein­angr­un sem stjórn­völd á Íslandi fyr­ir­skipa vegna smit­hættu. Dæmi um slíkt væri að yf­ir­völd á Íslandi gæfu út fyr­ir­mæli um að landið eða hlut­ar þess séu í sótt­kví eða settu bann við því að ferðast sé frá land­inu sem leiða til þess að þú kemst ekki í fyrirhugaða ferð. Til þess að for­föll í fyr­ir­hugað ferðalag sé bætt úr ferðatrygg­ingu hjá VÍS þarf að liggja fyr­ir að um sé að ræða op­in­bera sótt­kví eða önn­ur op­in­ber höft sem rekja má til far­sótt­ar­inn­ar.

 • Hvað eru op­in­ber höft?
  Opinber höft eru fyrirmæli stjórnvalda í heimalandi, eða á áfangastað, sem leiða til þess að þú kemst ekki í fyrirhugaða ferð. Dæmi um opinber höft geta verið lokun landamæra eða önnur yfirlýst ferðabönn sem leiða til þess að ferðamenn komast ekki á áfangastað. Við viljum benda á að upplýsingar um ferðabönn eða önnur opinber höft á landsvæðum geta breyst dag frá degi og hvetjum við þig til að fylgjast með nýjustu upplýsingum um þau.

 • Flug­inu mínu var af­lýst. Get ég sótt bæt­ur í for­falla­trygg­ingu mína?
  Ef flugfélag aflýsir fyrirhuguðu flugi átt þú rétt á fullri endurgreiðslu farmiða skv. EES-reglum. Við bendum þér á að hafa samband við flugfélagið þitt. 

 • Ég á bókað flug og gist­ingu á svæði þar sem stjórn­völd hafa gefið það út að ferðamenn inn í landið þurfi að fara í sótt­kví. Fæ ég tjón mitt bætt?
  Nei því miður. Við bendum á að mörg flugfélög og ferðaskrifstofur bjóða nú upp á þann kost að breyta bókunardagsetningum ferðar, viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

 • Ég á bókaða ferð en skvæmt upplýsingum frá Sóttvarnarlækni þarf ég að fara í 14 daga sóttkví við heimkomu. Á ég rétt á bótum úr forfallatryggingu ef ég hætti við ferð vegna þessa?
  Nei því miður. Við bendum á að mörg flugfélög og ferðaskrifstofur bjóða nú upp á þann kost að breyta bókunardagsetningum ferðar, viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

 • Ég á bókað flug er­lend­is en er í sótt­kví þegar flug mitt er. Fæ ég tjón mitt bætt?
  Já, ef starfandi læknir hefur fyrirskipað sóttkví hjá þér á þeim tíma þegar flug þitt er þá átt þú rétt úr forfallatryggingu. VÍS greiðir einungis þann hluta sem ekki fékkst endurgreiddur frá ferðasala og/eða gistisala. Þú þarft því alltaf að leita fyrst til flugfélagsins, ferðaskrifstofunnar og/eða gistisalans. Ef þú hefur ekki fengið allan útlagðan kostnað endurgreiddan þá tilkynnir þú tjónið á vis.is. Þeirri umsókn þarf að fylgja staðfesting læknis á sóttkví, bókunarstaðfesting flugfélags ásamt upplýsingum um endurgreiðslurétt, bókunarstaðfesting ferðaskrifstofu og/eða gistisala ásamt upplýsingum um endurgreiðslurétt.

 • Ég á bókaða ferð frá Íslandi en yfirvöld á áfangastað hafa gefið út ferðabann til viðkomandi svæðis. Fæ ég ferð mína bætta?
  Ef fluginu þínu hefur verið aflýst átt þú rétt á endurgreiðslu ferðar hjá flugfélagi og bendum við þér á að hafa samband þangað. Ef opinber höft leiða til þess að þú kemst ekki í ferð á brottfarardegi greiðir VÍS þann hluta sem ekki fékkst end­ur­greidd­ur frá ferðasala og/​eða gistisala. Þú þarft því alltaf að leita fyrst til flug­fé­lags­ins, ferðaskrif­stof­unn­ar og/​eða gistisal­ans. Ef þú hef­ur ekki fengið all­an útlagðan kostnað end­ur­greidd­an þá til­kynn­ir þú tjónið á vis.is. Þeirri um­sókn þarf að fylgja staðfest­ing frá flug­fé­lagi, ferðaskrif­stofu og/​eða gistisala um rétt á end­ur­greiðslu. Slík staðfest­ing get­ur verið á formi tölvu­póst­ar eða kvitt­un­ar.  Við vilj­um benda á að upp­lýs­ing­ar um ferðabönn eða önn­ur op­in­ber höft á landsvæðum geta breyst dag frá degi og því hvetj­um við þig til að fylgj­ast með nýj­ustu upp­lýs­ing­um um þau. 

 • Ég á bókað flug og gist­ingu á svæði sem Land­læknisembættið hef­ur lagt til að ein­stak­ling­ar séu ekki að ferðast til að nauðsynja­lausu. Ég vil ekki fara, get ég fengið ferð mína end­ur­greidda?
  Nei því miður, þar sem breyt­ing­ar á ferðatil­hög­un til að koma í veg fyr­ir hugs­an­legt tjón fell­ur ekki und­ir bóta­svið ferða- og korta­trygg­inga nema að stjórn­völd á viðkom­andi svæði hafa gefið út fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19 sem leiða til þess að þú kemst ekki í ferð þína.

 • Ég á bókaða ferð er­lend­is. Ég er með und­ir­liggj­andi sjúk­dóm og lækn­ir­inn minn hef­ur gefið út lækn­is­vott­orð þess efn­is að hann mælir gegn því að ég fari í fyr­ir­hugaða ferð vegna COVID-19. Fæ ég ferð mína bætta?
  Nei, því miður. Breyt­ing­ar á ferðatil­hög­un til að koma í veg fyr­ir hugs­an­legt tjón fell­ur ekki und­ir bóta­svið ferðatrygg­inga kred­it­korta og F plús. Til þess að eiga rétt á bót­um úr for­falla­trygg­ingu vegna COVID-19 veirunn­ar þurfa stjórn­völd á viðkom­andi svæði að hafa gefið út fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19. Þó svo trygg­ing­in taka ekki á slík­um at­vik­um þá hvetj­um við þig til að kynna þér vel upp­lýs­ing­ar inni á landla­ekn­ir.is þar sem ein­stak­ling­ar með ákveðin vanda­mál eru í auk­inni hættu á al­var­legri sýk­ingu ef þeir smit­ast af COVID-19. 

 • Ég á bókaða ferð, flug og gist­ingu, á viðburð s.s. ráðstefnu, fót­bolta­leik eða tón­leika. Sá sem held­ur viðburðinn hef­ur hætt við hann vegna COVID-19. Fæ ég ferð mína bætta?
  Nei, því miður eru slík til­vik ekki bætt úr ferðatrygg­ingu kred­it­korta og F plús. Til þess að eiga rétt á bót­um úr for­falla­trygg­ingu vegna COVID-19 veirunn­ar þurfa stjórn­völd á viðkom­andi svæði að hafa gefið út  fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19, þ.e. bann við því að ferðast sé til svæðis­ins. Við hvetj­um þig til að at­huga með mögu­leika á end­ur­greiðslu miða á viðburðinn hjá viðburðahald­ara. 

 • Ég á bókaða ferð, flug og gist­ingu, á viðburð s.s. ráðstefnu, fót­bolta­leik eða tón­leika. Stjórn­völd hafa sett sam­komu­bann vegna COVID-19 og þess vegna hef­ur verið hætt við viðburðinn. Fæ ég ferð mína bætta?
  Nei, því miður eru slík til­vik ekki bætt úr ferðatrygg­ingu kred­it­korta og F plús. Til þess að eiga rétt á bót­um úr for­falla­trygg­ingu vegna COVID-19 veirunn­ar þurfa stjórn­völd á viðkom­andi svæði að hafa gefið út fyr­ir­mæli um op­in­ber höft vegna COVID-19, þ.e. bann við því að ferðast sé til svæðis­ins. Ekki er nægi­legt að um sé að ræða sam­komu­bann á viðburði held­ur þarf um ferðabann að vera ræða á viðkom­andi svæði. Við hvetj­um þig til að at­huga með mögu­leika á end­ur­greiðslu miða á viðburðinn hjá viðburðahald­ara.

 • Á ég kost á að fá ferðakostnað, flug og gist­ingu, end­ur­greidd­an ef hót­el þar sem ég á bókaða gist­ingu er lokað vegna opinberra hafta?
  Já, ef hótelið er lokað vegna opinberra hafta, s.s. vegna lokunar sem fyrirskipuð er af yfirvöldum. VÍS greiðir einungis þann hluta sem ekki fékkst endurgreiddur frá ferðasala og/eða gistisala. Þú þarft því alltaf að leita fyrst til flugfélagsins, ferðaskrifstofunnar og/eða gistisalans. Ef þú hefur ekki fengið allan útlagðan kostnað endurgreiddan þá tilkynnir þú tjónið á vis.is.
 • Á ég kost á end­ur­greiðslu ferðar ef ég flýti heim­för vegna COVID-19?
  Nei, því miður þá eru slík tilvik ekki bótaskyld úr ferðatryggingu kreditkorta og F plús. Í slíkum tilfellum hvetjum við þig til að skoða upplýsingar hér að neðan sem við höfum tekið saman og hjálpa þér að forðast smit.
 • Ég greinist með staðfest smit af COVID-19 veirunni á ferðalagi. Hvað geri ég?
  Þér bjóðast bæt­ur úr ferðatrygg­ingu kred­it­korta og F plús vegna læknis- og sjúkrakostnaðar sem fellur til í beinum tengslum við veikindin. Við biðjum þig að hafa sam­band við SOS In­ternati­onal, halda til haga kvitt­un­um fyr­ir út­lögðum kostnaði og skrá viðkom­andi til­vik á vis.is. 
 • Tekur rekstrarstöðvunartrygging á rekstrarstöðvun fyrirtækis sem yrði ef stjórnvöld hér á landi loka landinu þ.e. loka flugvöllum?
  Nei, því miður, þar sem rekstrarstöðvun er eingöngu vegna bruna, vatns og/eða innbrots.
 • Ég er sjálfstætt starfandi. Hvaða tryggingu tek ég ef ég vil tryggja mig fyrir veikindum og slysum sem valda vinnutapi?
  Þú hefur tvo valmöguleika. Annars vegar slysa- og sjúkratrygging og svo rekstrarstöðvun vegna slysa og veikinda. Í slysa- og sjúkratryggingu er hægt að velja örorkubætur sem greiðast í einu lagi og eru skattfrjálsar og svo dagpeninga sem eru ígildi launa. Í dagpeningum er lágmarksbiðtími 2 vikur og af þeim er skattur greiddur. Í rekstrarstöðvun vegna slysa og veikinda er hægt að fá bætur vegna launa, fasts kostnaðar þ.e. leigu, rafmagns, hita og vaxtakostnaðar.

Mikilvægar upplýsingar m.a. frá Landlæknisembættinu um COVID-19 veiruna:

 • Ef verið er á svæði þar sem smit er til staðar er mikilvægt að:
  • Gæta ítrasta hreinlætis.
  • Leitast við að halda sig í tveggja metra fjarlægð frá fólki.
  • Forðast samskipti við þá sem eru hóstandi, kvefaðir eða veikir.
  • Ekki heilsast með faðmlagi eða handabandi.
  • Þvo hendur oft og vel með sápu.
  • Hósta og hnerra í pappír eða í olnbogabót og þvo hendur á eftir. Nota spritt ef handþvottur er ekki mögulegur.
  • Forðast að snerta augu, nef og munn með óhreinum höndum.
  • Virða tilmæli um ferða- og fjöldasamkomutakmarkanir.
  • Börn geta haft áhyggjur af stöðunni. Gott er útskýra hana fyrir þeim á einfaldan hátt svo þau skilji og viti hvað þau geta gert.
 • Landlæknisembættið hefur skilgreint svæði með mikla smithættu og litla smithættu.
 • Ef komið er heim frá svæðum með mikla smithættu biður Landlæknisembættið um 14 daga sóttkví.
 • Ef veikindi koma fram innan 14 daga frá því að verið var á sýktu svæði ber að tilkynna þau í 1700 eða til heilsugæslunnar í gegnum síma.
 • Einstaklingur með staðfesta COVID-19 ætti að nota andlitsmaska (N 95) þar til hann er kominn í einangrun, öðrum til varna.