Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 07.11.2019

VÍS hlýtur viðurkenningar fyrir jafnrétti

Félag kvenna í atvinnulífinu veitti VÍS viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2019. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

Hlutfallið milli kynja í framkvæmdastjórn VÍS í dag er 40/60 konum í vil en við höfum náð að vera með minnsta kosti 40% kvenna í framkvæmdastjórn undanfarin ár.

GEMMAQ kynjakvarði

Á Keldan.is, fréttaveita íslenska fjármálamarkaðarins, birtist jafnréttiseinkunn allra fyrirtækja í Kauphöllinni í fyrsta sinn í október.

Þar er horft til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækja með kynjagleraugum. Litið er til þess hvort forstjóri og stjórnarformaður séu karlar eða konur og hlutfall kynjanna í stjórn og framkvæmdastjórn. VÍS fær einkunnina 9 af 10 á þessum kvarða og einungis eitt annað fyrirtæki er með jafnháan stuðul. Meðaltal fyrirtækjanna í Kauphöllinni í október var 6,5.

Jafnrétti er ákvörðun

„Við höfum allt frá árinu 2001, þegar við gáfum út fyrstu jafnréttisstefnu VÍS, unnið með markvissum hætti að jafnréttismálum. Við vitum að hlutirnir gerast ekki að sjálfu sér. Það þarf að taka ákvörðun um að breyta og ganga í málin og það höfum við gert. Það er sérstaklega ánægjulegt að uppskera árangur þeirrar vinnu með viðurkenningum sem þessum. Við erum gríðarlega stolt af þessum viðurkenningum.“ – Anna Rós Ívarsdóttir, mannauðsstjóri.