Dag hvern berast VÍS að meðaltali 5,5 tilkynningar um vatnstjón sem eru bætt. Þessi tjón eru þó ekki einu vatnstjónin sem verða hjá viðskiptavinum VÍS þar sem fjölmörg tjón verða sem tryggingar bæta ekki. Þar er algengast að vatn leki utan frá. Til að koma í veg fyrir þau tjón er gott viðhald á húseign gríðarlega mikilvægt. Nauðsynlegt er að huga að þessum þáttum nú, áður en vetur konungur gengur í garð:

  • Sprungur á veggjum verður að lagfæra með viðurkenndum aðferðum þannig að yfirborð veggjar sé heilt og ósprungið.
  • Glugga þarf að mála áður en málning fer að flagna af og vanda þar undirvinnu. Gæta þess að vatn komist ekki meðfram þéttingum á milli glugga og byggingarefnis veggja.
  • Fylla upp í sprungur sem myndast á svölum og bera á svalagólf. Eins að moka snjó af svölum en algengt er að leki út frá þeim þegar snjór þiðnar.
  • Þakklæðning má ekki byrja að losna, ryð komast í plötur eða leki vera á samskeytum eða um naglagöt.
  • Veggir sem ganga niður í jörð þurfa að vera þurrir og þannig búið um að vatn geti ekki legið á þeim. Yfirborðsmeðhöndlun veggja þarf að vera vatnsfráhrindandi, jarðvegsefni vel gegndræpt og jarðvatnslagnir virkar.
  • Hurðir þurfa að vera þéttar og getur dugað að stilla slúttjárnið í karminum eða endurnýja þéttiborða.
  • Niðurföll verða öll að virka vel sama hvort er á svölum, rennum eða í stéttum. Hreinsa þarf þau fyrir veturinn og eins getur verið gott að setja hitaþráð í rennur ef vatn og snjór á til að frjósa í þeim.

Í viðhaldi húsa má aldrei gleyma öryggi þeirra sem vinna verkið. Best er að hafa vinnupall eða -lyftu í stað stiga til að minnka líkur á falli.