Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 13.11.2019

Vatnstjón í sumarhúsum

Það sem af er ári hafa orðið tvö altjón hjá viðskiptavinum okkar er heitt vatn lak í sumarhúsum þeirra. Eflaust trúir enginn eyðileggingarmætti heits vatns nema að hafa reynt það sjálfur eða komið inn í aðstæður þar sem heitt vatn hefur lekið í einhvern tíma. Skemmdirnar geta verið nánast eins og eftir eld, meira og minna allt skemmt sem er á staðnum. Orð eins og „ég held svei mér þá að leirtauið sé það eina sem er í lagi“ hafa fallið við þessar aðstæður.

Í upphafi árs var töluvert frost víða um land. Þegar slíkt veður er samfellt í nokkurn tíma getur frosið í lögnunum og þær gefa eftir í kjölfarið. Oft byrjar ekki að leka fyrr en fer að hlýna á ný, þó það sé ekki algilt. Vegna þessa er gríðarlega mikilvægt að eigendur þeirra 14.400 sumarbústaða sem eru í landinu temji sér að skrúfa alltaf fyrir neysluvatn þegar hús þeirra eru yfirgefin. Hafi hitun húss á lokuðu kerfi ef heitt vatn er notað til húshitunar og séu með vatnsskynjara, myndavélar og annan öryggisbúnað þar sem hægt er að fylgjast með ástandi húss t.d. í gegnum síma.

Húsið á meðfylgjandi mynd er annað þeirra húsa þar sem altjón varð í ár. Örlög þessa húss var að verða rifið en það var byggt 2003. Talið er að lekið hafi í um 4 vikur áður en lekinn kom í ljós. Það byrjaði með því að nágranni tók eftir að það var lítill snjór í kringum húsið en spáði ekki mikið í það fyrr en næsta dag er hann sá að gufa steig upp frá húsinu.

Vatnstjón eru 55% tjóna í húseigendatryggingu sumarhúsa en 88% bótagreiðslna. Það helgast af alvarleika tjónanna og hversu langur tími líður oft frá því að leki byrjar og þar til hann uppgötvast sem þarf þó alls ekki að telja í mörgum dögum. Algengustu lekarnir eru þegar tengi við blöndunartæki og klósett gefa sig eða blöndunartækin sjálf fara að leka og það gerist stundum þegar frís í lögnunum.

Hvernig getum við komið í veg fyrir vatnstjón?

  • Skrúfa alltaf fyrir inntak heita og kalda neysluvatnsins þegar hús er yfirgefið og tæma viðtengd tæki t.d. með því að skrúfa frá einum vatnskrana inni í húsi þar til hann hefur tæmt sig.
  • Vera með vatnsskynjara, myndavélar og annan öryggisbúnað þar sem hægt er að fylgjast með ástandi húss t.d. í gegnum síma.
  • Ef sumarhús er kynnt á veturna þarf að fá upplýsingar um það ef rafmagns- og/eða heitavatnslaust verður þar sem getur kólnað mjög hratt í húsi eða bilanir orðið á kerfum í kjölfarið.
  • Ef bústaður er hitaður með vatni er best er að hafa lokað hringrásarkerfi og vatnsinntak í sér rými utanhúss.
  • Nota hitaþræði við lagnir sem hætta er á að frjósi í s.s. við lagnir á milli húsa.
  • Ef bústaður er óupphitaður þarf að tappa af vatnslögnum og salerni fyrir veturinn og setja frostlög í vatnslása og vatnssalerni.

Það er til mikils að vinna, að gera allt sem eykur líkur á því að komið sé að bústaðnum í sama ástandi og hann var þegar skilið var við hann síðast, svo hægt sé að njóta dvalarinnar í honum.