Búast má við fjölgun hjólreiðafólks á þjóðvegunum í vikunni á meðan WOW Cyclothon keppnin stendur yfir. Fyrstu hópar fara af stað í dag þriðjudag en flestir leggja af stað klukkan 19 á morgun. Hjólað verður hringveginn norður fyrir og endað við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði. Mikilvægt er að allir ökumenn, bæði vélknúinna ökutækja og hjólandi, sýni fyllstu tillitssemi.

Við hvetjum ökumenn vélknúinna ökutækja til að draga úr hraða þegar þeir fara fram hjá hjólreiðafólki, sérstaklega stórra ökutækja þar sem kjölsogið getur verið hjólreiðafólki erfitt. Jafnframt er mikilvægt að gefa þeim hjólandi gott pláss þegar tekið er fram úr, gæta að umferð á móti og vera reiðubúinn til að bíða í augnablik með framúrakstur vegna hennar.

Hjólreiðafólk þarf líka að huga að sínu öryggi. Aðstæður fyrir það eru ekki alltaf góðar á þessari leið og mikilvægt að það sé meðvitað um sýnileika sinn. Leitist við að hjóla í einfaldri röð þegar það er möguleiki, halda sig hægra megin á veginum og huga að öruggum skiptingum liðsmanna. Eins þarf að tryggja að bílstjóri liðsins sé ávallt vel vakandi og með athyglina við aksturinn.