,,Ég leit augnablik á símann og svo þegar ég leit aftur upp sá ég að umferðin var stopp fyrir framan mig. Ég hafði ekki tíma til að bregðast við og fór aftan á bílinn fyrir framan mig sem hentist á þann næsta.“ Frásagnir sem þessar þar sem athyglin er ekki við umferðina koma á hverjum degi inn til VÍS. Slys sem aldrei hefðu þurft að eiga sér stað ef viðkomandi ökumenn hefðu verið með fulla athygli við aksturinn.

Erlendar rannsóknar sýna að það veldur 35% athyglisskerðingu að tala í síma við akstur og fjórfalt meiri líkur eru á alvarlegu umferðarslysi. Eins sýna rannsóknir að það skiptir litlu máli hvort handfrjáls búnaður sé notaður eða ekki í símtalinu, sama seinkun verður á viðbrögðum ökumanna. Athyglin skerðist svo mun meira þegar síminn er notaður sem snjalltæki en þá er ökumaður 23 sinnum líklegri til að lenda í umferðarslysi. Meðaltíminn sem litið er þá af götunni og á símann eru 4,3 sekúndur og samkvæmt könnun Samgöngustofu eru 25% ökumanna sem gera það oft, stundum eða sjaldan.

Munum að mistök okkar í umferðinni bitnar oft ekki aðeins á okkur sjálfum heldur einhverjum sem var svo óheppinn að vera nærri okkur. Höfum ávallt alla athygli við aksturinn. Munum að eitt augnablik getur verið nóg til að valda okkur eða öðrum tjóni sem ekki verður aftur tekið.