Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 22.05.2019

Snarpar vindhviður óvinur húsbíla

Með hækkandi sól birtast húsbílar á ný eftir veturinn. Því miður eiga slysin sér stað á þessum ökutækjum líkt og öðrum og eru bakktjón þar algengustu. Önnur algeng tjón eru aftanákeyrslur, ekið á kyrrstæða bifreið t.d. við vegbrún og á bílastæðum, foktjón og þegar ekið er á umferðarmannvirki eða aðra hluti.

Þó bakktjónin séu algengust eru þau sjaldnast alvarleg. Það verða slysin aftur á móti þegar bíll fer utan vegar og spilar vindur þar oft inn í. Húsbílar taka mikinn vind á sig og eru dæmi um að kassar bílanna hreinlega splundrist þegar bíll hefur fokið útaf.

Til að auka öryggi sitt og sinna er gott að hafa eftirfarandi í huga á ferðum um landið í sumar:

  • Gæta að nægjanlegri hvíld fyrir ferð.
  • Hafa eldvarnateppi og virkt slökkvitæki, reyk- og gasskynjara til staðar.
  • Athuga vind og hviður áður en lagt er af stað.
  • Ef ekið er í miklum vindi, draga úr hraða eða stoppa og leggja upp í vindinn og muna að í 24 m/s vindi geta hviður farið í 30-35 m/s.
  • Tryggja að allir noti bílbelti.
  • Vera með athyglina við aksturinn.
  • Virða hámarkshraða og aðstæður hverju sinni.
  • Hafa nægt bil milli bíla.
  • Hægja á sér þegar bílar mætast á malarvegi m.a. til að minnka líkur á steinkasti.
  • Bakka í stæði frekar en út úr þeim og jafnvel hafa einhvern úti til að segja til.