Reynsla VÍS sýnir að í frosti eins og hefur verið undanfarið og verður eitthvað áfram getur verið hætta á að frjósi í lögnum sumarhúsa og í loftræstikerfum fyrirtækja. Til að auka á þessa hættu eiga sumar veitur fullt í fangi með að anna eftirspurn á heitu vatni á sínu svæði. Vegna þessa viljum við hvetja sumarhúsaeigendur, sér í lagi þá sem eru með upphituð hús og umsjónarmenn fasteigna hjá fyrirtækjum þar sem eru loftræstikerfi að fylgjast með húseignum sínum.  

Hvað þurfa sumarhúsaeigendur að athuga?

Skoða þarf hvort þokkalegur hiti sé í húsinu, hvort nægt rennsli sé á vatni og þrýstingur eðlilegur á mæli lagnagrindar. Gott er að skilja vaskaskápa eftir opna sérstaklega ef þeir eru á útvegg og tryggja að skrúfað sé fyrir neysluvatnið og lagnir þeirra tæmdar þegar hús er yfirgefið. Eins er gott að hafa öryggiskerfi sem lætur vita ef breyting verður á hita og raka innandyra.

Eitthvað ekki í lagi í sumarhúsinu?

Ef eitthvað er ekki eins og á að vera er mikilvægt að finna rót vandans. Ef kalda vatnið hefur frosið getur hjálpað að láta heita vatnið renna í einhvern tíma. Annars þarf að finna út hvar frosið er og hita upp það svæði. Ef ekkert gengur til að koma vatni aftur á verður a.m.k. að skrúfa fyrir neysluvatnið áður en húsið er yfirgefið.