Fjöldi tilkynntra bifhjólaslysa til okkar er tvöfalt hærri nú en á sama tíma í fyrra og nálgast heildarfjölda bifhjólaslysa ársins 2018. Algengustu slysin eru fall af hjóli og útafakstur en þar á eftir koma aftanákeyrslur og hliðarárekstrar, gjarnan á gatnamótum. Líkamstjón eru í flestum þessara slysa og alvarleg í mörgum þeirra. Það er mikilvægt að allir í umferðinni geri það sem í þeirra valdi stendur til að forðast þessi slys og láti góða veðrið ekki hafa áhrif á hraða og athygli sína. 

Bifhjólafólk:

 • Fari ekki á hjól án viðurkennds öryggisbúnaðar.
 • Virði hámarkshraða og aki miðað við aðstæður.
 • Tryggi sýnileika sinn með skærlitum fatnaði.
 • Gangi út frá að ekki sé víst að aðrir vegfarendur hafi séð það.
 • Staðsetji sig á vegi þar sem aðrir vegfarendur sjá hjólið best.
 • Sé ávallt viðbúið óvæntum ákvörðunum annarra vegfarenda.
 • Gæti sín á sandi og holum í malbiki.
 • Láni ekki hjólið þar sem algengt er að slys verði þegar fólk er á lánshjólum.

Ökumenn annarra ökutækja:

 • Muni að bifhjól virðast oft fjær en raunin er.
 • Líti sérstaklega eftir bifhjólum á gatnamótum og við skiptingu akreina.
 • Noti stefnuljós til að segja til um stefnubreytingar sínar.
 • Gæti þess að dagljósabúnaður sé tendraður bæði að framan og aftan.

Við hvetjum alla ökumenn til að fara með gát og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þessi slysaþróun haldi ekki áfram út árið.