Í aðdraganda aðventu eru umræður um eldvarnir heimilisins mikilvægar. Flestir brunar á heimilum verða í kringum hátíðarnar en því miður hafa þeir einnig verið tíðir undanfarna tvo mánuði. Sérfræðingur okkar í forvörnum ræddi eldvarnir á Bylgjunni í vikunni og hvetjum við alla til að hlusta á viðtalið. Það er alltaf gott að láta minna sig á hvað þarf að hafa í huga því enginn vill að eldur kvikni á heimilinu.

Eldamennska

 • Yfirgefa ekki eldhúsið meðan verið er að elda.
 • Ekki geyma neitt ofan á eldavélinni.
 • Nota öryggislæsingar þegar eldavélin er ekki í notkun.

Kerti

 • Rafhlöðukerti eru alltaf öruggust en ef lifandi kerti eru notuð þarf að gæta að öryggi þeirra, staðsetningu og undirstöðu.
 • Ef lifandi kerti er notað í aðventukransa og aðrar skreytingar þarf að hafa þær þannig að sem minnst hætta sé á að kvikni í þeim þó að gleymist að slökkva.
 • Hafa bil á milli kerta a.m.k. 10 sm

Seríur

 • Minni eldhætta er af ledseríum en seríum með glóperum. 
 • Ekki nota seríur sem eru laskaðar eða bilaðar.
 • Ef slokknar á perum í seríu eykst straumur til annarra og þær geta hitnað. Ef hægt er að skipta um perur þarf að gera það strax og gæta þess að nýju perurnar séu af réttum styrkleika.
 • Hlaða ekki of miklu í fjöltengi og alls ekki tengja þau saman né fylla þau af mjög orkufrekum tækjum.

Eldvarnabúnaður heimilisins

 • Reykskynjari á hverri hæð og í herbergjum þar sem raftæki eru. Ef 9 vatta rafhlaða er til staðar þarf að endurnýja hana árlega.
 • Eldvarnarteppi á sýnilegum stað í eldhúsi, samt ekki of nærri eldavél.
 • Yfirfarið slökkvitæki sem er á aðgengilegum stað við útgöngu.

Ef eldur kviknar

 • Skiptir öllu að allir komist heilir út.
 • Hringja í 112 um leið og hægt er.
 • Aldrei setja sig í hættu við að slökkva eld.
 • Ef kviknar í feiti á að setja eldvarnateppi yfir en alls ekki nota vatn eða reyna að bera pott út.