Í gærmorgun kom fram í dagbók lögreglu að 4 ára drengur hefði dottið á hlaupahjóli í Kópavogi. Hann hafi rotast við fallið og verið fluttur á slysadeild.

Slysið vildi til með þeim hætti að Janus Leví var á leið niður brekku ásamt foreldrum sínum. Ekki vildi betur til en svo að hann datt og skall með höfuðið í götuna. Við fallið rotaðist Janus Leví þrátt fyrir að hafa verið með hjálm sem dró úr högginu. Móðir hans, Berglind Helgadóttir, sagði að eftir slysið hafi þau áttað sig á að hjálmurinn hafi virst vera rétt stilltur en of mikill slaki hafi greinilega verið á böndunum þar sem hjálmurinn rann til við höggið.

Berglind sagði að það hefði verið erfitt að sjá barnið sitt liggja grafkyrrt á götunni og upplifa það að hann væri ekki að koma til baka fyrr en eftir töluverðan tíma. Það sem skipti þó máli núna sé að allar myndir komu vel út og að hann sé orðinn sjálfum sér líkur á ný þó hann muni ekki eftir slysinu, sjúkrabílnum eða öðru. Núna sé bara að taka næstu daga rólega og læra af þessu. Berglind segist vera mjög meðvituð um öryggi en það sé greinilega alltaf hægt að gera betur þar eins og í svo mörgu öðru. Eftir á að hyggja finnst henni gott að sjá áhersluna á öryggið hjá viðbragðsaðilum en þeir sögðu að þau yrðu að henda hjálminum. Núna sé eitt af næstu verkefnum að fjárfesta í nýjum hjálmi en sá tjónaði er kominn í ruslið.

Hjálmur

 • Hjálmur á að vera af réttri stærð en ummál hans má sjá á innrabyrði
 • Hjálmur á að sitja beint ofan á höfði og eyrun að vera í miðju V formi banda
 • Einungis einn til tveir fingur eiga að komast undir hökuband
 • Rétt stilltan hjálm á aðeins að vera hægt að færa til um nokkra millimetra
 • Yfirfara þarf stillingar reglulega
 • Hjálmur sem hefur orðið fyrir höggi er ónýtur
 • Líftími hjálma er alla jafna 5 ár frá framleiðsludegi og þrjú ár frá söludegi

Hlaupahjól

 • Öruggast er að vera á svæði þar sem engin umferð er
 • Ójöfn svæði og þar sem er sandur eru ekki ákjósanleg
 • Mýkri og stærri dekk veita betri stöðugleika
 • Hjálmur er nauðsynlegur
 • Hlífar á olnboga, úlnlið og hné er gott að nota
 • Stamir sólar á skóm eru mikilvægir
 • Fylgjast með ástandi á bremsum, dekkjum, legum og öxlum

VÍS hvetur alla til að huga að öryggi sínu og sinna og þakkar Berglindi fyrir að deila sinni sögu. Slysin gera nefnilega boð á undan sér þó svo ekki sé vitað um stað og stund. Þess vegna er öryggisbúnaður notaður og hægt að ná nokkuð langt með því að vera meðvituð um áhættur.

Hjálmurinn sem Janus Leví var með á höfðinu

Á myndinni má sjá rispur og dæld sem komu á hjálminn sem Janus Leví var með þegar hann datt.