Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í forvörnum fyrirtækja hjá VÍS, skrifaði eftirfarandi pistil sem birtist í Sjómannadagsblöðunum vítt og breitt um landið á Sjómannadaginn, 2. júní 2019.

ATVIK-Sjómenn er næsta skref í öryggismálum sjómanna

ATVIK-Sjómenn er atvikaskráningarkerfi sem veitir sjávarútvegsfyrirtækjum betri yfirsýn yfir öryggismál til sjós, aðstoðar við að greina mögulegar hættur um borð og stuðlar að úrbótum í vinnuumhverfi sjómanna með markvissum forvarnaaðgerðum. VÍS hefur þróað kerfið í samvinnu við Slysavarnaskóla sjómanna og nokkur leiðandi fyrirtæki í sjávarútvegi.

Mismunandi tegundir atvika

ATVIK-Sjómenn byggir á fimm mismunandi tegundum atvika sem hægt er að skrá í kerfið. Fyrst er Ábending þar sem hægt er að benda á hættur í vinnuumhverfinu eða verklagi um borð til að koma í veg fyrir að óhapp eða slys verði. Næst kemur flokkur þar sem hægt er að greina frá atvikum þar sem  næstum slys eða óhöpp eiga sér stað. Síðan kemur flokkurinn Minniháttar slys en báðir þessir flokkar innihalda oft atvik sem eru undanfari alvarlegra atvika. Því næst er flokkurinn Fjarveruslys sem á við um slys sem leiðir til fjarveru sjómanns frá vinnu í einn dag eða lengur. Að síðustu er flokkur sem kallast Ógn en þar er hægt að skrá einelti, ógnandi hegðun eða annars konar áreitni sem getur átt sér stað á vinnustaðnum. Kerfið býður líka upp á að vista myndir með hverri skráningu sem getur verið mjög nytsamlegt til að mynda þegar verið er að benda á hættur í vinnuumhverfi eða aðstæður þar sem einhver atvik hafa átt sér stað.

Sjálfvirkni einfaldar úrvinnslu

Við skráningu á hverju atviki verður sjálfkrafa til skýrsla ásamt myndum. Auk þess er hægt að kalla fram tilkynningaeyðublöð til ýmissa opinberra aðila svo sem Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags sem fyllast sjálfkrafa út með þeim upplýsingum sem þegar hafa verið skráðar í kerfið. Slík sjálfvirkni einfaldar alla skriffinnsku og úrvinnslu mála. Sömuleiðis lætur kerfið skipstjórnendur og öryggisstjóra vita þegar atvik hefur verið skráð um borð sem og sjómenn sem skráðu atvikið þegar það hefur verið tekið til úrvinnslu eða því lokið með aðgerðum. Þannig eru allir betur upplýstur um öryggi og mögulegar úrbætur um borð. Yfirstjórnendur í landi geta síðan fengið gott yfirlit yfir skráð atvik fyrir allan skipaflotann og einnig sundurliðað niður á hvert skip fyrir sig. Þannig öðlast fyrirtækin ákveðna heildarsýn á stöðu öryggismála til sjós sem hægt er að vinna út frá.

Stuðlar að bættri öryggismenningu

Óhætt er að segja kerfið hafi fengið mjög góðar viðtökur hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og hafa til dæmis Vinnslustöðin, FISK-Seafood, Vísir, Samherji og Þorbjörn þegar byrjað að nota kerfið í sínum skipum. Fleiri útgerðir eru í þann mund að hefja notkun á kerfinu.

ATVIK-Sjómenn var upphaflega ætlað viðskiptavinum VÍS en kjölfar mikillar eftirspurnar innan geirans var ákveðið að bjóða það öðrum til kaups. Það er engin spurning í mínum huga að ATVIK-Sjómenn er í dag nýjasta og öflugasta verkfærið í öryggismálum sjómanna. Kerfið er nýr liður í að stuðla að bættri öryggismenningu til sjós og styðja við þann góða árangur sem náðst hefur í öryggismálum sjómanna á undanförnum árum.