Samkvæmt Einari hjá Veðurvaktinni verður veður á morgun, 11. janúar, svipað að líkindum og það sem gekk yfir í gærmorgun og verður aftur verst SV-lands. Vindhraðinn verður 20-25 m/s og nær hámarki á milli kl. 17 og 19 þegar margir verða á leið heim úr vinnu. Á höfuðborgarsvæðinu verður hvassast í eftir byggðum, við Rauðavatn, nýju hverfum Kópavogs og í Vallahverfinu í Hafnarfirði. Hviður verða allt að 35-40 m/s á Reykjanesbraut og á Kjalarnesi þegar verst lætur. Hríðarveður og hálka verður austur yfir Hellisheiði á þessum tíma.

Veðrið gengur hratt yfir en fljótlega upp úr kl. 19 eða 20 gengur það niður á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Við hvetjum einstaklinga og fyrirtæki til að gæta að öllum lausamunum utandyra og gæta að hvort eitthvað hafi losnað í síðasta óveðri sem þurfi að festa betur. Best er að bíða með að fara á milli staða á meðan veðrið gengur yfir. Ef það er ekki hægt þarf að skoða færð og veður áður en lagt er af stað og gæta vel að bílhurðum þar sem þær geta auðveldlega fokið upp þegar þær eru opnaðar.