Um leið og skólar byrja þéttist umferð gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að taka tillit til þess í skipulagi dagsins en reyna ekki að auka hraðann á stútfullum götum, skjóta sér á milli raða eða taka aðrar óþarfa áhættur sem auka m.a. líkur á aftanákeyrslum sem er önnur algengasta orsök ökutækjatjóna hjá viðskiptavinum VÍS.

VÍS hvetur ökumenn til að sýna þá þolinmæði sem þarf til að hafa nægjanlega langt bil á milli bíla. Erfitt er að segja í metrum hver lengdin á að vera. Það fer m.a. eftir hraða ökutækis, yfirborði vegar og ástandi dekka. Gott getur verið að hafa þriggja sekúndna regluna sem viðmið. Miða við ákveðinn stað sem bílinn á undan ekur fram hjá og gæta þess að a.m.k. þrjár sekúndur líði áður en ekið er fram hjá sama stað.

Á hverju ári lendir að meðaltali tíunda hvert ökutæki sem tryggt er hjá VÍS í tjóni. Hver og einn ökumaður getur gert mikið til að minnka líkur á slysi og hvetur VÍS alla til að gera það sem í þeirra valdi er til að svo megi vera.