Síminn hlaut í dag forvarnarverðlaun VÍS sem veitt voru við hátíðlega athöfn á forvarnaráðstefnu VÍS sem haldin var á Hilton Nordica hótelinu. Þetta er í níunda sinn sem VÍS verðlaunar fyrirtæki fyrir góða frammistöðu í baráttunni gegn vinnuslysum.

Að mati dómnefndar er Síminn fyrirmyndarfyrirtæki í forvörnum og öryggismálum. Sem dæmi um það starfar Síminn samkvæmt vottuðu öryggisstjórnunarkerfi. Til að viðhalda öflugri öryggisvitund og öryggismenningu heldur fyrirtækið meðal annars reglubundnar vitundarvakningarkynningar fyrir alla starfsmenn.

Reykjalundur og Endurvinnslan fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan árangur í öryggis- og forvarnarmálum

Orri Hauksson, forstjóri Símans, veitti verðlaununum viðtöku í dag. Hann þakkar VÍS kærlega fyrir viðurkenninguna.

„Hún hefur mikla þýðingu fyrir okkur, því hún staðfestir að Síminn sinnir forvörnum afar vel og er ábyrgt fyrirtæki. Við náum aldrei endapunkti þegar kemur að forvörnum, heldur þurfum stöðugt að vera á verði, fyrirbyggja slysin, uppfæra áhættumat og búnað og tryggja öryggi bæði starfsmanna okkar og viðskiptavina. Góður aðbúnaður starfsfólks skilar sér í betri þjónustu og ánægðari viðskiptavinum. Þannig auðveldum við þeim þá ákvörðun að treysta okkur til að halda utan um dagleg samskipti sín. Öflugar forvarnir og ýtrasta öryggi eru því allra hagur.“

Á myndinni eru frá vinstri: Gísli Níls Einarsson forvarnarsérfræðingur hjá VÍS, Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri þjónustu hjá VÍS, Orri Hauksson forstjóri Símans, Helgi Lárusson framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, Helgi Kristjónsson framkvæmdastjóri reksturs hjá Reykjalundi og Helgi Bjarnason forstjóri VÍS.