Alvarlegustu tjónin í sumarhúsum stafa af bruna og vatni þar sem allt getur eyðilagst. Fallslys eru aftur á móti algengustu slysin og verða þau alvarlegustu oft í tengslum við byggingu eða viðhald húss.

Að sinna viðhaldi er mikilvægur hluti þess að eiga sumarhús. Til að komast klakklaust frá verki er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Vera í línu ef unnið er uppi á þaki.
  • Ganga úr skugga um að stigi eða tröppur séu heilar, rétt settar saman og henti verkinu sem á að vinna.
  • Nota stiga með stömu efni undir stigakjálka, festa hann við hús eða láta einhvern standa við hann og gæta þess að hann renni ekki.
  • Nota stöðugar tröppur sem ekki er hætta á að renni í sundur.
  • Fara ekki með þunga hluti upp stiga.
  • Gæta þess að teygja sig ekki til hliðar heldur færa stigann til.

Gróðureldar
Undanfarin ár hefur mikil gróska verið í trjárækt og líkur á gróðureldum aukist samhliða. Þar getur útbreiðsluhraði elds verið ótrúlega mikill en hann fer m.a. eftir gróðri, vindi, hita, raka og landslagi.

Líkur á gróðureldum í sumarbústaðhverfum geta verið töluverðar þar sem svæðin eru oft umlukin gróðri. Þó svo ákveðnir landshlutar hafi legið í bleyti síðustu mánuði er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um þessa hættu og kynni sér helstu forvarnir á grodureldar.is eða í Sumarhúsa handbókinni frá Landssambandi sumarhúsaeigenda.