Bruni varð á heimili viðskiptavina okkar þegar börn voru að rista brauð eftir skóla. Brauðristin stóð á sér og skilaði brauðinu ekki upp. Eldur kviknar en börnin ná að taka úr sambandi, setja eldvarnateppi yfir, hringja og koma sér út. Allt eins og hægt er að ætlast til af börnum. Eldvarnateppið dugar ekki og lætur undan hitanum. Eldurinn breiðist út og ekki mátti miklu muna í tíma að slökkvilið hefði illa ráðið við aðstæður þegar það mætti.

Töluvert tjón varð á húsi og innanstokksmunum eins og myndir bera með sér en það sem mestu máli skiptir er allir sluppu heilir út. Flest annað er hægt að bæta. Þessi bruni minnir okkur enn og aftur á að eldur getur kviknað út frá hvaða rafmagnstæki sem er. Fæstir líta á brauðristina sem líklegan brunavald, horfa frekar á kerti og notkun eldavélar sem eru algengir brunavaldar á heimilum.

Nú fer sá tími í hönd þar sem brunum á heimilum eru flestir. Við hvetjum alla til að fara með gát og vera meðvitaða um brunahættur heimilisins. Tryggja þarf að reykskynjarar, eldvarnateppi og slökkvitæki séu í lagi og að allir viti hvernig eigi að bregðast við ef eldur kviknar með það að leiðarljósi að heimilisfólk komist heilu á höldnu út.