Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 11.09.2018

Fimm á vespu!

Vespur (létt bifhjól í flokki I*) eru þægilegur ferðamáti sem sífellt fleiri nýta sér, sér í lagi þeir yngri enda rafmagnsvespur verið vinsæl fermingargjöf undanfarin ár. Ákveðnar reglur gilda um ferðamátann sem flestir fara eftir en þó eru alltaf einhverjir sem ekki eru meðvitaðir um þær eða virða þær að vettugi.

Vespur (létt bifhjól í flokki I*) eru þægilegur ferðamáti sem sífellt fleiri nýta sér, sér í lagi þeir yngri enda rafmagnsvespur verið vinsæl fermingargjöf undanfarin ár. Ákveðnar reglur gilda um ferðamátann sem flestir fara eftir en þó eru alltaf einhverjir sem ekki eru meðvitaðir um þær eða virða þær að vettugi.

Einkum eru það þrjú atriði sem brjóta í bága við reglurnar sem algengt er að sjá:

  • Of margir á hjóli en einungis ökumenn sem orðnir eru 20 ára mega gefa farþegum far og verður hjólið þá að vera gert fyrir farþega.
  • Enginn hjálmur á höfði en skylt er að hafa bifhjólahjálm á vespum.
  • Ekið of hratt en þessar vespur eru ekki ætlaðar fyrir meiri hraða en 25 km/klst.

Ekki er krafist réttinda til að aka vespu í flokki I en viðkomandi verður að vera orðinn 13 ára. Heimilt er að aka á götum en mælt er með að aka á gangstíg, hjólastíg eða gangstétt og taka þar fullt tillit til annarra vegfarenda.

Hjá VÍS falla þessar vespur undir F plús fjölskyldutryggingar þ.e. slys, þjófnaði á læstri vespu og tjón á henni. Vert er að nefna að slysatrygging gildir aðeins fyrir þá sem falla undir F plús trygginguna en ekki aðra sem eru á hjólinu sama hvort um er að ræða ökumann eða farþega. Tjón sem ökumaður veldur öðrum er bætt, sé hann skaðabótaskyldur. Hægt er að skerða bætur ef ökumaður sýnir stórkostlegt gáleysi.

*Létt bifhjól í flokki 1 eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem ná ekki meiri hraða en 25 km/klst. hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin. Þá er miðað við hámarkshraða sem framleiðandi bifhjólsins gefur upp.