Ferðalög með eftirvagna er þægilegur og einfaldur ferðamáti enda yfir 17.000 ferðavagnar til á landinu. Alvarlegustu slysin í tengslum við vagnana verða þegar þeir losna aftan úr bíl á ferð, fjúka útaf eða rása svo mikið að þeir fara yfir á rangan vegarhelming. Til að tryggja að allt fari vel á ferðalaginu er mikilvægt að huga að eftirfarandi:

 • Fara með vagninn í lögbundna skoðun
 • Hafa eftirvagninn ekki of þungan fyrir bílinn (hámarksþyngd má sjá í skráningarskírteini)
 • Vera viss um að legur, dekk, ljósabúnaður og tengibúnaður sé í lagi
 • Að ökuréttindi nái yfir samanlagða þyngd bíls og eftirvagns
 • Fara yfir búnað og tengingar við gas
 • Gæta þess að skrúfað sé fyrir gas eftir notkun
 • Hafa eldvarnabúnað til staðar
 • Nota öryggisvír þegar vagninn er dreginn
 • Nota framlengda hliðarspegla ef vagninn byrgir sýn
 • Skoða veðurspá áður en lagt er af stað
 • Tryggja svæðið fyrir aftan ef þarf að bakka
 • Aka með sérstakri gát á tjaldsvæðum
 • Fara að umferðarlögum og miða hraða ávallt við aðstæður