Eldvarnabandalagið hefur síðustu ár gert samninga við fjölmörg sveitarfélög um eigið eldvarnaeftirlit á stofnunum þeirra. Í gær skrifaði Eldvarnabandalagið undir samning við Brunavarnir Árnessýslu en á þeirra starfssvæði eru átta sveitarfélög. Markmiðið er að efla eldvarnir á stofnunum sveitarfélaganna og á heimilum starfsfólks þeirra. 

Þar sem sveitarfélög í Árnessýslu eru átta talsins og stofnanirnar fjölmargar var ákveðið að byrja verkefnið í öllum grunnskólum sýslunnar. Skólastjórnendur eða staðgenglar þeirra voru boðaðir á fundinn til að kynna fyrir þeim verkefnið auk þess sem fulltrúar frá Eldvarnabandalaginu voru viðstaddir undirskriftina.

Í stuttu máli gengur verkefnið fyrst til að byrja með út á að hver skóli tilnefnir eldvarnafulltrúa til að gera mánaðarlegar eldvarnaskoðanir í húsnæði skólans. Að auki mun starfsfólk hvers skóla fá fræðslu um eldvarnir en reynslan sýnir að slík fræðsla skilar sér ekki einungis í bættum eldvörnum á vinnustaðnum heldur einnig á heimilum starfsmanna.