Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 25.07.2018

Á að fara í veiði?

Slys við veiði geta verið allt frá litlum atvikum upp í mjög alvarleg slys. Margt er hægt að gera til að koma í veg fyrir þau.

Margir geta ekki hugsað sér að sumarið líði án þess að taka aðeins í stöng. Fjöldi skráðra og óskráðra veiðistaða eru óteljandi og auðvelt að gleyma sér við þessa iðju. Slys geta verið allt frá litlum atvikum upp í mjög alvarleg slys. Margt er hægt að gera til að koma í veg fyrir þau. Það er nú einu sinni þannig að slysin gera boð á undan sér, það þarf bara að þekkja og veita því athygli sem getur leitt til þeirra.

  • Skoða umhverfið í kringum veiðistaðinn t.d. hvort þar séu gjótur, varasamar brekkur eða steinar.
  • Skoða veiðistaðinn sjálfan m.a. út frá dýpt, straumum og gerð botns.
  • Nota höfuðfat með barði.
  • Nota gleraugu með polaroid gleri og lokun til hliða.
  • Spenna ávallt mittisbeltið á vöðlunum.
  • Setja gadda undir vöðlurnar ef botninn er sleipur.
  • Nota vaðstaf til að kanna botn og auka stöðugleika ef á að vaða.
  • Vera í flotvesti ef veitt er í straumþungri á.
  • Nota sólarvörnina óspart.
  • Hafa flugnanet meðferðis ef flugan verður aðgangshörð.
  • Vera í fatnaði í mörgum lögum ásamt vel vind- og vatnsheldri skel.
  • Vera með símann fullhlaðinn í vatnsheldum poka og hafa hleðslusnúru og aukahleðslu meðferðis.
  • Taka gps, áttavita, kort og flautu meðferðis, ef veitt er uppi á hálendi.
  • Gæta vel að þeim sem eru í kring þegar kastað er.
  • Muna að borða og drekka reglulega yfir daginn til að halda orku og hafa heita drykki meðferðis ef kalt er í veðri.
  • Skilja ferðaáætlun eftir hjá traustum aðila.