Á hverju ári verða um 2.000 vatnstjón á heimilum viðskiptavina VÍS en þau eru 65% allra húseigendatjóna en 80% af tjónagreiðslum. Engir sérstakir mánuðir skera sig úr heldur dreifast tjónin nokkuð jafnt milli mánaða. 

Fæstir gera sér grein fyrir því hversu mikið rask getur orðið í kjölfar vatnstjóns nema þeir sem hafa reynt það á eigin skinni. Skemmdir geta orðið gífurlegar, sér í lagi ef heitt vatn lekur.

Hvaða tjón eru þetta?
Um helmingur vatnstjóna eru vegna leka í lögnum. Þrjár ástæður eru þar áberandi hæstar. Þegar samskeyti lagna leka 34%, ytri tæring 28% og innri tæring 21%. Hinn helmingur tjónanna eru vegna tækja og umgengni við þau. Helstu ástæður þar eru leki frá ofnum 20%, vatnstengdar vélar 19%, blöndunartæki og tengikranar 16%, vatnslásar 14% og 11% þegar lekur frá baðkörum eða sturtum.

Er hægt að koma í veg fyrir þessi tjón?
Eins og svo oft áður þá margborga forvarnir sig. Gott viðhald á húsum, lögnum og viðtengdum tækjum er gríðarlega mikilvægt. Vera almennt meðvitaður um umhverfi sitt. Fylgjast með hvort breytingar verði á lit t.d. á málningu og vatni, hvort málning og flísar losni, hvort fúkkalykt sé til staðar, hvort hreyfing eða kalkútfellingar séu á samskeytum ofna eða lagna við vaska og viðtengd vatnstæki. Vera viss um að niðurföll séu hrein, ekkert hindri rennsli vatns að þeim og forðast að setja eitthvað í niðurföllin sem getur stíflað. Einnig er gott að nota vatnsskynjara þar sem vatnstengdar vélar eru, sér í lagi þar sem engin niðurföll eru í rýminu.