Sigríður Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri á mannauðssviði VÍS, flutti erindi um reynslu VÍS af innleiðingu jafnlaunastaðals á ráðstefnu í Brussel í síðustu viku. Ráðstefnan var haldin í aðsetri EFTA og að frumkvæði íslenska sendiráðsins í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna.

VÍS var fulltrúi íslenskra fyrirtækja á ráðstefnunni en félagið hefur að undanförnu tekið þátt í tilraunaverkefni um notkun jafnlaunastaðals á vegum aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Sigríður kynnti þá vinnu sem farið var í til að hljóta jafnlaunavottun samkvæmt staðlinum.

Jafn-Sisi.jpg
Sigríður Vilhjálmsdóttir flutti erindi um reynslu VÍS af innleiðingu jafnlaunastaðals.

Hátt í hundrað manns, víðs vegar að úr heiminum, sóttu ráðstefnuna. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, kynnti áherslur sínar um jafnlaunavottun, mannauðsstjóri Tollstjóraembættisins sagði frá þeirra reynslu og sérfræðingur í jafnréttismálum hjá ASÍ sagði frá aðkomu sambandsins að staðlinum. Þá tók yfirmaður skrifstofu mannréttindamála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til máls og kynnti áform framkvæmdastjórnarinnar um nýja stefnu um samhæfingu fjölskyldu og atvinnulífs sem hefur m.a. það markmið að auka atvinnuþátttöku kvenna og draga úr launamun kynjanna í Evrópu.

 

Jafnréttisfyrirlesarar_web.jpg
Fulltrúar Íslands á ráðstefnunni