Mikilvægt er að vera vel undirbúin fyrir veðrið sem gengur yfir í kvöld og á morgun. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, segir að tvær óveðurslægðir muni fara um næsta sólarhring. Með þeirri fyrri verður suðaustan stormur, 20 - 25 m/s seint í kvöld og fram á nótt einkum vestanlands og um vestanvert Norðurland. Búist er við að kröpp lægð komi í kjölfarið og fari hratt skammt vestan við landið. Um leið og hún fer hjá getur orðið verulega hvasst, jafnvel ofsaveður frá því um kl. 9 í fyrramálið og fram yfir kl. 13, fyrst suðvestanlands, en síðar á Vesturlandi, í Dölum, Ströndum og norður í Húnaþing og Skagafjörð. Það verður í raun hvellur sem stendur í um 2 klst. á hverjum stað þegar verst lætur. Veðurhæð mun ná 23 - 28 m/s og staðbundnar hviður 40 - 50 m/s. Rétt er að geta þess að spáin kann að taka breytingum en leið þessarar kröppu lægðar ræður mestu um vindstyrkinn.

VIS_ovedur_web.jpg
Búist er við stormi (meira en 20 m/s) víða á landinu, en búast má við roki eða ofsaveðri (23-30 m/s) um landið vestanvert á morgun.

VÍS hvetur einstaklinga til að ganga frá lausamunum utandyra eins og grillum, sorpílátum og garðhúsgögnum. Eins að framkvæmdaaðilar hugi að festingum vinnupalla og öðru sem getur fokið á vinnusvæðum þeirra.

Samkvæmt Einari er öruggast að vera ekki utandyra meðan veðurhæðin er mest þar sem varasamt geti verið að vera á ferðinni. VÍS hvetur fólk til að fylgjast með upplýsingum um veður og færð á vef Vegagerðarinnar og leggja ekki af stað fyrr en veður hefur gengið niður. Þá þarf að gæta þess að hurðir, bæði á bílum og húsum, fjúki ekki upp þegar gengið er um þær og gluggar áveðurs séu lokaðir.

Á þetta einkum við suðvestanlands, s.s. á Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akranesi, Borgarfirði og Snæfellsnesi, í Dölum. En jafnframt er útlit fyrir að foráttuhvasst verði í Hrútafirði og í Húnaþingi þ.m.t. á Hvammstanga, á Blönduósi, Skagaströnd og á Sauðárkróki.