Samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrri helming ársins 2017 var staðfestur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 24. ágúst 2017. Árshlutareikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins.

Helstu niðurstöður fyrri helmings ársins 2017

  • Hagnaður tímabilsins nam 1.107 m.kr. samanborið við 238 m.kr. sama tímabil árið 2016.
  • Bókfærð iðgjöld jukust um 16,7% frá sama tíma í fyrra.
  • Kostnaðarhlutfall lækkaði í 20,8% úr 22,0% á sama tíma í fyrra.
  • Samsett hlutfall var 95,4% en var 104,8% á sama tímabili í fyrra.
  • Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu 1.152 m.kr. samanborið við 636 m.kr. á sama tíma 2016.
  • Hagnaður á hlut nam 0,50 krónum samanborið við 0,10 krónur fyrir sama tímabil 2016.
  • Gjaldþolshlutfall félagins í lok tímabilsins var 1,61.

Helstu niðurstöður annars ársfjórðungs 2017

  • Hagnaður tímabilsins nam 917 m.kr. samanborið við 93 m.kr. sama tímabil árið 2016.
  • Kostnaðarhlutfall var 21,3% en var 22,0% á sama tíma í fyrra.
  • Samsett hlutfall var 84,2% samanborið við 105,1% sama tímabil árið 2016.

Helgi Bjarnason forstjóri VÍS

„Annar ársfjórðungur var félaginu hagfelldur. Samsett hlutfall var 84,2% sem er með því lægsta sem við höfum séð um langt árabil og var afkoma viðunandi af flestum vátryggingagreinum á tímabilinu. Sá iðgjaldavöxtur sem við höfum séð síðustu misseri heldur áfram og er þar bæði um að ræða hærri meðaliðgjöld, en einnig ný viðskipti. Þannig eru eigin iðgjöld að vaxa um 15,6% frá sama tímabili í fyrra. Félagið hefur frá árinu 2015 unnið að breytingum á iðgjöldum til að bregðast við mikilli hækkun í tíðni tjóna og tjónakostnaðar. Því er niðurstaða fjórðungsins gleðiefni og vonast er til að farið sé að draga úr þeirri miklu hækkun tjónakostnaðar sem verið hefur undanfarna ársfjórðunga.

Horfur
Gert er ráð fyrir ágætum iðgjaldavexti á árinu 2017 og er reiknað með að samsett hlutfall verði á bilinu 95-98%.

Kynningarfundur
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn hjá VÍS í Ármúla 3, þann 25. ágúst n.k. kl. 8:30. Þar mun Helgi Bjarnason forstjóri kynna afkomu félagsins og svara spurningum. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á vef VÍS (vis.is/vis/fjarfestar/fjarfestafundur). Þar verður einnig hægt að nálgast kynningarefni og upptöku að fundi loknum.

Hluthafar og fjárfestar eru hvattir til að mæta á fundinn til að kynna sér uppgjörið, eða hafa samband við samskiptastjóra félagsins vilji þeir óska eftir fundi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Fjárhagsdagatal

Viðburður  Dagsetning:
2. ársfjórðungur  24. ágúst 2017
3. ársfjórðungur  24. október 2017
Ársuppgjör  8. vika 2018

 

Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Andri Ólafsson samskiptastjóri í síma 660-5105 og í netfangi fjarfestatengsl@vis.is.