Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn |22.02.2017

Rúmlega tvöföldun í notkun stefnuljósa

Um 80% ökumanna gáfu stefnuljós þegar þeir óku út úr hringtorginu í Hafnarfirði þar sem Fjarðar-, Bæjar-, Garða- og Flatahraun mætast samkvæmt stefnuljósakönnun VÍS.

Um 80% ökumanna gáfu stefnuljós þegar þeir óku út úr hringtorginu í Hafnarfirði þar sem Fjarðar-, Bæjar-, Garða- og Flatahraun mætast samkvæmt stefnuljósakönnun VÍS. Þróunin er í rétta átt en stefnuljósanotkun í hringtorginu hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2013 þegar VÍS hóf að gera kannanir á þessum stað. Árið 2013 gáfu 34% ökumanna stefnuljós og árið 2015 var hlutfallið komið í 47%. Könnunin núna tók til 3.493 ökumanna sem óku fram hjá talningarmönnum VÍS.

Notkun á stefnuljósum liðkar fyrir umferð og bætir flæði hennar til muna. Stefnuljósin auka öryggi og minnka hættu á slysum. Sú almenna regla gildir um notkun stefnuljósa í hringtorgum að gefa skal stefnuljós til hægri áður en ekið er út úr hringtorgi og til vinstri þegar ekið er framhjá útkeyrslu á ytri akrein.

Þegar rýnt er í könnun Samgöngustofu frá 2016, þar sem aksturshegðun Íslendinga er skoðuð, kemur í ljós að 62% ökumanna hafði á síðustu 6 mánuðum oft eða stundum orðið fyrir truflun eða verið undir álagi vegna hegðunar annarra vegfarenda. Árið á undan var þetta hlutfall 41%, þannig að hegðun annarra í umferðinni hefur mun meiri áhrif nú en áður. Sú hegðun annarra sem truflar mest eða veldur helst álagi, er skortur á notkun stefnuljósa eða 74%.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá þessa miklu aukningu á notkun stefnuljósa, þar sem skortur á notkun þeirra er sú hegðun sem truflar ökumenn mest.