Viðvörunarskilti sem sýnir fjölda látinna í umferðinni hefur nú verið gert upp og endurnýjað.  Skiltið stendur suðvestan við Suðurlandsveg rétt ofan við Draugahlíðarbrekku, en 17 ár eru frá því það var sett upp. Tryggingafélögin VÍS, TM og Vörður ásamt Samgöngustofu, sameinuðust um kostun endurbótanna og framkvæmd verkefnisins. Skiltið var upphaflega sett upp árið 2000 en auk þess að greina frá fjölda látinna eru ofan á því tvær bifreiðar sem hafa orðið fyrir tjóni í umferðarslysum. Það var samróma álit þeirra sem að verkinu komu að mikilvægt væri að halda þessu skilti við, til að minna ökumenn á ábyrgð þeirra með vísan í fjölda þeirra sem látist hafa í umferðinni á árinu.

Í upphafi hvers árs er talan núll sett á skiltið í þeirri von að hún fái að standa óbreytt út árið. Sú hefur reyndar aldrei verið raunin en hæst hefur fjöldi látinna farið í 32 og lægst í 4 frá því að skiltið var sett upp.

Tilurð verkefnisins

Að sögn Óla H. Þórðarsonar, sem var framkvæmdastjóri Umferðarráðs, kynnti hann á sínum tíma hugmyndina að skiltinu fyrir Sambandi íslenskra tryggingafélaga og aðildarfélög þess. Sameinuðust þessir aðilar um uppsetningu skiltisins. Skiltið vísar í báðar akstursstefnur og er á því kross og inni í honum er tala látinna á hverjum tíma skráð með áberandi hætti. Talan er uppfærð strax eftir að banaslys hefur orðið og hafa starfsmenn SB – skiltagerðar í Þorlákshöfn annast það verkefni. Um hver áramót hefst síðan ný talning. Auk þessa er á skiltinu hvatning með áletruninni „Eru beltin spennt?“ en fátt er eins mikilvægt og árangursríkt við björgun mannslífa í umferðinni eins og öryggisbelti.

Óhætt er að segja að þetta skilti hafi vakið verðskuldaða athygli og nú er svo komið að það er orðið sérstakt tákn þegar fjallað er um banaslys í umferðinni í sjónvarpsstöðvum og í blöðum landsmanna. Að sögn Óla H. Þórðarsonar lýsa margir sem leið eiga framhjá mannvirkinu þeirri reynslu sinni að áhrif skilaboðanna höfði sterkt til sín og má því segja að þau áhrif risti orðið djúpt í þjóðarsál Íslendinga.