Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn |13.09.2017

Nýtt skipurit hjá VÍS – Framkvæmdastjórum fækkað – Jöfn kynjahlutföll í stjórnendateyminu

Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti VÍS og það einfaldað til muna. Framkvæmdastjórar verða fjórir í stað sex og stjórnendur eru nú 26 í stað 33 áður.

Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti VÍS og það einfaldað til muna. Framkvæmdastjórar verða fjórir í stað sex og stjórnendur eru nú 26 í stað 33 áður. Aukin áhersla er lögð á öfluga þjónustu við viðskiptavini og stafrænar lausnir. Þetta er gert til að búa fyrirtækið betur undir framtíðaráskoranir sem blasa við. Samfélagið tekur hröðum breytingum og þjónustufyrirtæki eins og VÍS þurfa að breytast með.

  • Auður Björk Guðmundsdóttir verður framkvæmdastjóri Þjónustu,
  • Guðný Helga Herbertsdóttir verður framkvæmdastjóri Stafrænnar þróunar
  • Ólafur Lúther Einarsson verður framkvæmdastjóri Kjarnastarfsemi.
  • Valgeir M. Baldursson kemur nýr til félagsins en hann var áður forstjóri Skeljungs. Valgeir verður framkvæmdastjóri Fjárfestinga og reksturs.

Við erum að þétta raðirnar og endurhugsa alla okkar nálgun og snertingu við viðskiptavini. Það er hluti af markmiði okkar sem er að veita viðskiptavinum VÍS bestu þjónustu sem völ er á. Við leggjum einnig með þessum skipulagsbreytingum aukna áherslu á stafrænar lausnir sem við teljum gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni okkar til framtíðar.

Auður Björk Guðmundsdóttir hefur verið framkvæmdastóri hjá VÍS frá 2005. Hún er með B.A. gráðu í fjölmiðla- og markaðsfræði frá University of South Alabama, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka AMP stjórnendanámi frá IESE í Barcelona.

Guðný Helga Herbertsdóttir hefur verið markaðsstjóri VÍS frá 2016. Hún er með BSc gráðu í viðskiptum frá Háskóla Íslands og meistaragráðu frá Viðskiptaháskólanum í Árósum.

Ólafur Lúther Einarsson hefur verið forstöðumaður lögfræðiráðgjafar hjá VÍS frá 2010 en hóf störf hjá félaginu 2001. Hann er cand. jur. frá Háskóla Íslands og löggiltur verðbréfamiðlari.

Valgeir M. Baldursson var forstjóri Skeljungs frá 2014. Hann lærði viðskipta- og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Agnar Óskarsson framkvæmdastjóri tjónasviðs, Guðmar Guðmundsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri þróunarsviðs munu láta af störfum í kjölfar þessara breytinga.

Framkvæmdastjórn VÍS eftir breytingarnar er skipuð, auk fyrrgreindra framkvæmdastjóra, Helga Bjarnasyni forstjóra og Önnu Rós Ívarsdóttur mannauðsstjóra.

Hjálagt er nýtt skipurit.