Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn |28.12.2017

Meðferð flugelda

Meðferð flugelda - förum varlega um áramótin

Ánægjulegt er að sjá hvað flugeldaslysum hefur fækkað síðustu ár. Margt hefur haft áhrif en aldrei má gleyma því að eitt slys er einu slysi of mikið. Breyting á regluverki, öruggari vörur, notkun á öryggisgleraugum, minna fikt hjá ungmennum og rétt umgengni við flugeldavörur hefur m.a. stuðlað að þessari þróun.

Aldrei má þó sofna á verðinum og nauðsynlegt er að rifja upp hvernig best er að bera sig að. Í meðfylgjandi myndbandi er farið yfir helstu atriðin varðandi meðferð flugelda.

 • Lesa leiðbeiningar.
 • Gæta að börnum og virða mörk um aldur notanda.
 • Gæta að dýrum.
 • Nota öryggisgleraugu.
 • Nota ullar- eða skinnhanska.
 • Geyma vörurnar fjarri skotstað. Aldrei í vasa á fatnaði, ekki einu sinni eldfærin.
 • Virða fjarlægðarmörk frá skotstað, a.m.k. 20 metra.
 • Nota stöðuga undirstöðu fyrir flugelda, standblys og skotkökur.
 • Skera flipana af skotkökukassanum áður en skotið er.
 • Tendra í með útréttri hendi, ekki halla sér yfir og víkja strax frá.
 • Ef vara virkar ekki látið hana vera í nokkrar mínútur og hellið síðan vatni yfir.
 • Muna að áfengi og flugeldar eiga aldrei samleið.