Vátryggingafélag Íslands hf. („VÍS“) hefur náð samkomulagi við fimm núverandi hluthafa Kviku banka hf. („Kvika“) um kaup á samtals 21,8% hlut í Kviku. Heildar kaupverð hlutanna er um 1.655 m.kr., sem samsvarar 5,4 kr. á hlut. Kaupverðið verður greitt að fullu með reiðufé.

Kvika er sérhæfður fjárfestingarbanki sem veitir sparifjár- og innlánseigendum alhliða fjármálaþjónustu. Viðskiptin falla vel að langtímahagsmunum VÍS og með þeim eignast VÍS umtalsverðan hlut í öflugu og framsæknu fjármálafyrirtæki.

Seljendur á hlutum í Kviku eru Titan B ehf. (7,27%), Ingimundur hf. (6,61%), Fagfjárfestasjóðurinn Norðurljós (5,77%), Kvika banki hf. (1,27%) og M-804 ehf. (0,92%).

Eftir þriðja ársfjórðung 2016 námu fjárfestingareignir VÍS 34,4 milljörðum og eignir samtals 47,8 milljörðum. Eigið fé félagsins var 15,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall 32,4%. Hluthafar VÍS eru um 800 talsins, stórir og smáir. Lífeyrissjóðir eru þar umsvifamestir og eiga samtals um 42% hlutafjár með beinum hætti.

Kvika starfar meðal annars samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Kaup VÍS á hlutum í Kviku eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins á hæfi VÍS til að fara með virkan eignarhlut í Kviku. Í kjölfar kaupanna verður óskað eftir mati Fjármálaeftirlitsins á hæfi VÍS og verður tilkynnt um niðurstöðu matsins þegar hún liggur fyrir.

Jakob Sigurðsson forstjóri VÍS: Með þessum viðskiptum eignast VÍS hlut í öflugu fyrirtæki sem stendur frammi fyrir spennandi tækifærum. Starfsemi tryggingafélaga byggist á tveimur meginstoðum; vátryggingastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Auk þess að vera gott fjárfestingatækifæri stuðla kaupin að dreifingu áhættu í eignasafni félagsins og þjóna þannig hagsmunum VÍS vel til lengri tíma. Af því njóta bæði viðskiptavinir og hluthafar góðs.


Uppfært 6. janúar

Í tilefni af tilkynningu Vátryggingafélags Íslands hf. („VÍS“) frá 5. janúar sl. vill félagið árétta eftirfarandi:

Í tilkynningu frá stjórn Kviku banka hf. („Kvika“) og stjórn Virðingar hf. frá 28. nóvember 2016 um viljayfirlýsingu þeirra um undirbúning samruna félaganna kemur fram, að í aðdraganda sameiningar verði eigið fé Kviku lækkað um 600 m.kr. og lækkunin greidd til hluthafa bankans.

Samkvæmt samkomulagi VÍS við seljendur hlutafjár í Kviku verður gengi hins selda og kaupverðið leiðrétt til samræmis ef arður er greiddur áður en afhending hlutanna fer fram til VÍS. Jafnframt skal leiðrétta fjölda hlutanna, gengi og kaupverð hins selda ef lækkun hlutafjár á sér stað með greiðslu til hluthafa fyrir afhendingu hlutanna til VÍS. Eins og fram kom í fyrri tilkynningu eru kaupin gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins á hæfi VÍS til að fara með virkan eignarhlut í Kviku.

Stjórn VÍS skilgreindi áhættuvilja félagsins í ágúst 2015 með þeim hætti að gjaldþolshlutfall þess sé 1,50. Í lok þriðja ársfjórðungs 2016 var gjaldþolshlutfallið 1,83. Kaupin falla mjög vel að áhættuvilja félagsins.