Með því að nota endurskin sjá ökumenn gangandi og hjólandi allt að fimm sinnum fyrr. Ávinningur þess að setja endurskin á sig er ótvíræður. Dökkur utanyfirfatnaður er vinsæll og minnkar sýnileikann enn frekar og ýtir undir mikilvægi endurskins. Í könnunum sem VÍS hefur gert við skóla hafa 57-74% nemenda verið án endurskins, mismunandi hlutfall eftir könnunum. 

Endurskin þarf að vera sýnilegt frá öllum hliðum. Gott er að setja hangandi endurskinsmerki á hliðar yfirhafnar að framan og aftan neðantil. Mikið úrval er til af endurskini. Má þar nefna límd, hangandi, saumuð, á fatnaði þegar hann er keyptur eða endurskinsvesti sem eru vinsæl hjá hlaupa- og hjólafólki.

Á skrifstofum okkar, vítt og breytt um landið, er hægt að koma við og ná sér í hangandi endurskinsmerki og/eða vesti og auka með því sýnileika sinn. Það borgar sig.