Tilkynntum brunum á heimilum fjölgaði í fyrra um þriðjung. Þetta kemur fram í tölum sem VÍS hefur tekið saman. Þetta er mikið áhyggjuefni enda í fyrsta sinn í mörg ár sem tilkynntum brunum fjölgar. Fjöldi tilkynntra bruna í ár gefur til kynna að tíðnin verði svipuð og í fyrra.

Flestir brunar á heimilum verða í desember og fast á eftir fylgir janúar. Eldamennska, kerta- og seríunotkun er sjaldan eins mikil og á þeim tíma. Að mörgu þarf að hyggja. Til að mynda ættu kertaskreytingar og aðventukransar alltaf að vera þannig að kertin geti brunnið niður án þess að eldhætta skapist og einhver með augun á þeim eins og eldamennskunni.

Ástæður bruna

Ástæður þessara fjölgunar bruna má í mörgum tilfellum heimfæra upp á aðgæsluleysi íbúa.

Hér eru nokkur dæmi um bruna sem tilkynntir hafa verið til VÍS:
- Gleymist að slökkva á kerti í kertaskreytingu þegar farið er að heiman yfir nóttu og kviknar í þegar kerti fer að brenna niður.
- Olía í laufabrauðspotti ofhitnar og kviknar í pottinum.
- Skotist út í búð um hádegi á aðfangadag án þess að slökkva á kerti í skreytingu sem kviknar í á meðan.
- Orkufrekum rafmagnstækjum hlaðið á fjöltengi og fjöltengi sett yfir á annað fjöltengi og kviknar í fjöltenginu.
- Greini og skraut liggur upp við kerti í skreytingu sem kviknar í þegar kertið brennur niður á meðan viðkomandi bregður sér í bað.
- Kviknar í pizza kössum sem voru settir á heita eldavél.
- Kviknar í mat sem var að steikjast á pönnu en allir brugðu sér inn í stofu til að horfa á sjónvarpið og eldurinn fékk nægan eldsmat í fitunni sem var í viftunni fyrir ofan eldavélina.
- Kviknar í innkaupapoka sem var settur á eldavél og barn kveikir á henni þar sem barnalæsingin var ekki á.
- Olíublautt viskastykki sem hafði verið yfir kalkúni sett beint í þvottakörfuna þar sem sjálfsíkveikja varð.

Öruggari búnaður um jólin

Undanfarin ár hafa ýmsar vörur sem minnka líkur á brunum orðið algengari og er þessi aukning á brunum ekki í samræmi við það. Má þar nefna:
- Led seríur eru mun öruggari en seríur með gló perum.
- Kerti þar sem kertaþráður nær ekki niður í botn kertis til notkunar í skreytingum.
- Kramarhús sem undirstaða fyrir sprittkerti í skreytingum.
- Rafmagnskerti sem má fá í mörgum stærðum og gerðum.

Mikilvægt er að átta sig á því að lögbundin brunatrygging tryggir ekki innbú heimilisins. Einungis húsið sjálft og veggfasta hluti sem eru skildir eftir við flutninga. Innbústrygging þarf því að vera til staðar svo innbú fáist bætt úr bruna en af og til koma upp tilfelli þar sem þá vernd vantar þegar kemur til tjóns.

VÍS óskar þess að allir eigi örugga og gleðilega jólahátíð og hvetur hvern sem er til þess að tryggja að virkir reykskynjarar, eldvarnateppi og yfirfarið slökkvitæki séu til staðar á heimilinu.