Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn |12.07.2017

Afkomuviðvörun – Góð afkoma af vátryggingarekstri á öðrum ársfjórðungi

Verulegur viðsnúningur var í afkomu af vátryggingarekstri á öðrum ársfjórðungi 2017.

Samkvæmt drögum að samstæðuárshlutareikningi VÍS fyrir fyrri árshelming 2017 liggur fyrir að verulegur viðsnúningur var í afkomu af vátryggingarekstri á öðrum ársfjórðungi 2017. Ástæða er til að upplýsa markaðinn, þar sem um er að ræða afgerandi frávik. Drögin sýna að samsett hlutfall á öðrum ársfjórðungi er 84,4%, samanborið við 107,2% á fyrsta ársfjórðungi ársins. Fjórðungurinn var óvenju tjónaléttur, það á einnig við um ökutækjatryggingar en afkoma af þeim er þó enn óviðunandi. Ávallt má búast við sveiflum í vátryggingarekstri og er varhugavert að draga of víðtækar ályktanir af afkomu eins ársfjórðungs.

Samsett hlutfall á fyrri árshelmingi 2017 er samkvæmt framangreindu 95,4%. Horfur eru á að samsett hlutfall ársins 2017 verði á bilinu 97%- 99%.

Drögin gera ráð fyrir að hagnaður samstæðu VÍS fyrir skatta á fyrri árshelmingi 2017 verði um 1,1 ma.kr. fyrir utan hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélagsins Kviku banka á öðrum ársfjórðungi 2017, þar sem upplýsingar um afkomu bankans á tímabilinu liggja ekki fyrir. Afkoma Kviku banka getur haft áhrif á endanlega rekstrarniðurstöðu tímabilsins.

Sá fyrirvari er einnig gerður að ekki liggur fyrir endanlegur samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrri árshelming 2017 og þá á enn fremur eftir að kanna samstæðuárshlutareikninginn.

Birting rekstrarniðurstöðu annars ársfjórðungs og fyrri árshelmings 2017 fer fram eftir lokun markaða fimmtudaginn 24. ágúst n.k.