Fyrir viku var skrifstofa VÍS flutt um set á Hellu og er nú í Miðjunni, stjórnsýsluhúsi Rangæinga, sem kalla má allsherjarþjónustukjarna sveitarfélagsins. Undir sama þaki er m.a. að finna sveitarstjórnarskrifstofuna, hárgreiðslustofu, tannlæknastofu, teiknistofu, sjúkraþjálfun, verkalýðsfélag, lífeyrissjóð, vínbúð og matvöruverslun eða kaupfélag eins og slíkar verslanir kölluðust víðast hvar úti á landi á síðustu öld.

Hella Iris.jpg
Íris Björk hefur komið sér vel fyrir á nýju skrifstofunni á Hellu.

Mér líður mjög vel hér að fenginni vikulangri reynslu,“ segir Íris Björk okkar kona á Hellu. „Fyrri staðsetning var ekki viðunandi lengur eftir breytingar sem þar voru gerðar. Við vorum nánast orðin inni á gistiheimili og viðskiptavinir gátu átt allt eins búist við að sjá fólk skjótast um ganga á nærbuxunum einum fata. Hér er ég alsæl á efstu hæð með frábært útsýni og góða granna. Reyndar er keppinautur frá Sjóvá hér beint fyrir neðan en við erum skör ofar svo hann á ekki roð í okkur,“ segir Íris Björk á léttu nótunum og alsæl með vistaskiptin. 

Í október var greint frá því í sunnlenska.is​ að mikil ásókn væri í að fá leigt á 4. hæð stjórnsýsluhússins þar sem VÍS hefur nú aðstöðu. Heimilisfangið á nýja staðnum er Suðurlandsvegur 1-3.