Mjólkursamsalan og Vátryggingafélag Íslands hafa samið um að VÍS tryggi MS og tengd félög til næstu þriggja ára. MS bauð út tryggingar sínar ásamt tryggingum Auðhumlu svf., Bitruháls ehf., Kosts ehf. og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Í kjölfar þess var ákveðið að semja aftur við VÍS sem hefur tryggt MS frá árinu 2008.  

„Með útboðinu fengum við staðfest að verð og tryggingavernd fyrir okkur væri hagstæðust hjá VÍS. Það var því einboðið að halda samstarfinu áfram. MS er eitt stærsta dreifingarfyrirtæki landsins og áherslur VÍS í forvörnum, ekki hvað síst í flutningum, falla vel að okkar starfsemi. Forvarnir eiga ekki síður við í framleiðslunni sjálfri rétt eins og aðföngum og dreifingu,“ segir Ari Edwald forstjóri MS.  

VIS_EMMESS_edit.jpg
Á myndinni eru Þorvaldur I. Birgisson, deildarstjóri fyrirtækjaþjónustu VÍS, Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS, Ari Edwald forstjóri MS og Kristján Björgvinsson, fjármálastjóri MS.

Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS tekur í sama streng. „Ég fagna því að þetta öfluga fyrirtæki sjái hag sínum best borgið hjá VÍS. MS er öflugt fyrirtæki með víðtæka og viðamikla starfsemi. Við munum vinna áfram af kappi að öflugu forvarnastarfi og hlökkum til að takast á við það með stjórnendum fyrirtækisins.“